Minningarsjóði Ölla bárust góðar gjafir
Ölli hefði orðið fertugur í dag
Minningarsjóði Ölla bárust í dag góðar gjafir á afmælisdegi Örlygs Arons en Ölli, eins og hann var kallaður, hefði orðið fertugur í dag hefði hann lifað.
Nýstofnaður samfélagssjóður HS Orku færði sjóðnum eina milljón króna og er þetta fyrsta styrkveiting þess sjóðs. Með styrknum vill HS Orka leggja sitt af mörkum til íþróttaiðkunar barna og heiðra það góða starf sem sjóðurinn hefur unnið fyrir börn undanfarin ár. Það var samfélagsráð HS Orku sem afhenti styrkinn með þau Sigurð Markús Grétarsson, Petru Lind Einarsdóttur og Jóhann Snorra Sigurbergsson í farabroddi.
Eigendur Icemar, þau Gunnar Örlygsson, frændi Ölla, og Guðrún Hildur Jóhannsdóttir, færðu sjóðnum einnig eina milljón króna. Með gjöfinni vilja þau leggja sitt af mörkum til að styrkja börn til íþróttaiðkunar sem ekki eiga kost á því vegna bágrar fjárhagsstöðu foreldra eða umsjónarmanna og um leið heiðra minningu Ölla sem gaf mikið af sér til allra sem voru honum samferða á hans stutta lífsskeiði. Erna Agnarsdóttir, amma Ölla, og Guðrún Hildur Jóhannsdóttir, eigandi Icemar, afhentu gjöfina.
Það hefur skapast hefð fyrir því hjá Minningarsjóði Ölla að börn taki á móti gjöfum til sjóðsins enda eru það börn sem njóta góðs af. Í þetta sinn tóku þau Kristín Arna Gunnarsdóttir, Stefán Logi Agnarsson, Berglind Rún Sigurðardóttir, Jóhanna Valdís Branger og Oddur Óðinn Birgisson við gjöfunum sem sérstakir sendifulltrúar sjóðsins. Þau eru öll frændsystkini Ölla og tóku stolt á móti þessum veglegu gjöfum, sem eiga án vafa eftir að koma sér vel fyrir börn á Íslandi sem þurfa á aðstoð að halda til að geta stundað sína íþrótt.
Þær Særún Lúðvíksdóttir, móðir Ölla og stofnandi sjóðsins, og María Rut Reynisdóttir, framkvæmdastjóri sjóðsins, þakka kærlega fyrir þessar veglegu gjafir á afmælisdegi Ölla. Sjóðurinn var stofnaður árið 2013 og hefur síðan þá aðstoðað fjölda barna með greiðslum á æfingagjöldum, æfingabúnaði og kostnaði við æfinga- og keppnisferðir. Þær stöllur segja sífellt fleiri leita til sjóðsins enda er hann skilvirkur og rekinn án alls kostnaðar sem þýðir að öll fjárframlög til sjóðsins renna óskipt til barna. Þær hvetja öll þau sem þurfa á aðstoð að halda til að standa straum af kostnaði við íþróttaiðkun barna sem og öll þau sem vita af börnum sem þurfa á aðstoð að halda, að setja sig í samband við sjóðinn en hægt er að sækja um styrki á heimasíðunni minningarsjodurolla.is.