Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Minnihlutinn í bæjarstjórn Reykjanesbæjar vill neyta forkaupsréttar að Hitaveitu Suðurnesja
Laugardagur 30. júní 2007 kl. 01:33

Minnihlutinn í bæjarstjórn Reykjanesbæjar vill neyta forkaupsréttar að Hitaveitu Suðurnesja

„Við teljum að Hitaveita Suðurnesja, sem á hitalagnir og vatnsveitulagnir inn í öll hús í sveitarfélaginu,  eigi að vera í samfélagslegri eign,” sagði Eysteinn Jónsson, bæjarfulltrúi A-listans í Reykjanesbæ, í samtali við vefritið Eyjuna í kvöld. Bæjarfulltrúar minnihlutans ætla að leggja fram tillögu á bæjarstjórnarfundi á þriðjudag um að sveitarfélagið neyti forkaupsréttar á hlut ríkisins í Hitaveitu Suðurnesja, sem Geysir Green Energy keypti nýlega.  Neyti sveitarfélagið forkaupsréttar á þessum 15,2% mun það eiga um 55% í fyrirtækinu.

Reykjanesbær er í dag langstærsti hluthafinn í Hitaveitu Suðurnesja með um 39,7% hlut. Eins og fyrr sagði mundi forkaupsréttur á hlut ríkisins færa bænum ríflega 54% og hreinan meirihluta. Hafnarfjarðarbær er að auki eignaraðili að Hitaveitu Suðurnesja með 15,7% hlut.

A-listinn í Reykjanesbæ hefur gagnrýnt meirihluta sjálfstæðismanna harðlega fyrir hvernig haldið er á fjármálum og rekstri bæjarfélagsins.

Eysteinn var spurður hvort bærinn hefði fjárhagslegt bolmagn til að ráðast í kaup á hlutabréfum af þessari stærðargráðu - miðað við þá gagnrýni sem minnihlutinn hefur beint að Árna Sigfússyni, bæjarstjóra og meirihluta sjálfstæðismanna.

„Það er rétt að við ræddum það í aðdraganda sveitarstjórnarkosninganna síðastliðið ár að sveitarfélagið stæði illa fjárhagslega en ætti mikla eign í Hitaveitu Suðurnesja en efnahagur fyrirtækisins hefur bólgnað út, meðal annars vegna þess að það hefur ekki verið greiddur eðlilegur arður til eigendanna,” sagði Eysteinn. „Það er kannski kominn tími til þess að jafnöflugt fyrirtæki greiði meiri arð til sinna eigenda.”
„Ég held að ákvörðun um sölu á hlut ríkisins í Hitaveitu Suðurnesja sé ekki nægilega ígrunduð af hálfu Alþingis og ríkissjóðs. Málið hefur ekki fengið næga umfjöllun á Alþingi og menn hafa ekki velt því fyrir sér hvað gerist þegar eitt af þremur öflugustu orkufyrirtækum landsins fer í einkaeigu,  fyrirtæki sem rekur hitaveitu og vatnsveitu fyrir almenning.”

Greinin í heild sinni á fréttavefnum Eyjan.is

 

 

 

 

 

 

 

 

 

.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024