Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Minnast brunans í Skildi
Miðvikudagur 1. desember 2010 kl. 15:57

Minnast brunans í Skildi

Þann 30. desember n.k. verða 75 ár liðin frá brunanum í samkomuhúsinu Skildi í Keflavík þar sem 10 manns, þar af sjö börn, létu lífið. Aldrei hafa fleiri, svo vitað sé, látið lífið í bruna á Íslandi frá því á Sturlungaöld.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Af því tilefni verður haldin minningarstund um brunann í Keflavíkurkirkju sunnudaginn 5. desember. Þar verður jafnframt kynnt nýútkomin bók um þennan hörmulega atburð eftir Dagnýju Gísladóttur sem tekið hefur viðtöl við marga þá sem sóttu skemmtunina sem og aðstandendur þeirra sem létu þar lífið.

Bókin er að sögn Dagnýjar tilraun til þess að varðveita þessa sögu fyrir komandi kynslóðir og segir hún ljóst að atburðurinn hafi markað djúp spor í lítið samfélag þar sem sorgin var ekki borin á torg.

"Það er ýmislegt sem hefur komið í ljós við ritun þessara frásagna og skoðun á heimildum. Til að mynda hafði sýslumaður sett bann á jólatrésskemmtunina þar sem aðbúnaður í samkomuhúsinu var ekki í samræmi við lögreglusamþykkt en ungmennafélaginu tókst að fá því aflétt svo skemmtunin gæti farið fram. Ljóst er af framburðum vitna að Skjöldur brann á örskömmum tíma til kaldra kola en talið er að um fimm mínútur hafi liði frá því að kviknaði í jólatrénu og þar til allir voru komnir út og húsið alelda. Brunavörnum var áfátt í Keflavík á þessum tíma og hafði á það verið bent. Hins vegar er ljóst að slökkviliðið mátti sín lítils á svo skömmum tíma en hins vegar tókst því að verja nærliggjandi byggingar þrátt fyrir vanbúnað. Síðast en ekki síst má ekki gleyma hetjunum sem þarna stóðu á meðan stætt var en þegar sá síðasti kom út úr samkomuhúsinu logaði hár hans. Þarna unnu margir frækilegt björgunarstarf og vörnuðu því að ekki fór enn ver".

Minningarstundin hefst kl. 20:00 og eru allir velkomnir. Að henni lokinni verður boðið upp á kaffi og bókin kynnt.