Minna á íbúafund fyrir Grindvíkinga á morgun
Eftir átakanlega viðburði helgarinnar lagði fjöldi Grindvíkinga leið sína í Tollhúsið í dag og óskuðu margir aðstoðar vegna húsnæðismála. Þá var fjölmennt í Hafnarfjarðarkirkju og Keflavíkurkirkju á samverustundum bæjarbúa nú í kvöld. Grindavíkurbær minnir á að íbúafundur verður haldinn á morgun, þriðjudag 16. janúar kl 17.00 í Laugardalshöll, fundinum verður einnig streymt á heimasíðu og samfélagsmiðlum bæjarins.
Á fundinum verður Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, ásamt fjölda annara aðila sem koma með einum eða öðrum hætti að aðgerðum í Grindavík vegna jarðhræringa. Dagskrá fundarins verður birt á morgun.
Opið verður í Tollhúsinu frá kl 10 - 17 á morgun eins og aðra virka daga og Grindavíkurbær hvetur fólk nýta sér þá fjölbreyttu þjónustu sem þar er í boði, m.a. sálfélagslegan stuðning og aðstoð við umsóknir fyrir þau úrræði sem standa Grindvíkingum til boða. Þá er vert að minna á hjálparsíma Rauða kross Íslands 1717 sem er opinn allan sólarhringinn. Einnig er minnt á upplýsingasíðu fyrir Grindvíkinga á Ísland.is