Minkurinn finnur skjól í sjóvarnargörðum
Vegfarendur um göngustígana meðfram sjávarsíðunni hafa orðið varir við minka í sjóvarnargörðunum t.d. í Innri-Njarðvík. Þá hefur orðið vart við mink í sjóvarnargarðinum við smábátahöfnina í Grófinni og víðar. Þeir sem til þekkja telja þó að minki sé ekki að fjölga. Nokkuð hefur verið gert í því undanfarin ár að halda honum í skefjum hér á svæðinu.
Páll Þórðarson í Norðurkoti í Sandgerði segir grjótið í sjóvarnargörðunum vera kjörið fyrir minkinn að leynast í. Þar sé nánast ógjörningur að ná dýrunum því minkahundarnir nái ekki til þeirra inn í grjótinu. Páll er með fjóra hunda og er einn þeirra sem tekið hafa að sér minkaveiðar hér á svæðinu.
Páll segir að undanfarin þrjú ár hafi tekist að halda minki alveg frá æðavarpinu í Norðurkoti. Aðeins einn minkur hafi sloppið innfyrir en hann náði ekki að gera neinn óskunda.
Minkar geta verið hinir mestu skaðvaldar og haft veruleg áhrif á fuglalíf. Af þeim sökum hafa sveitarfélögin greitt minkabönum fyrir að ná dýrunum.
---
VFmynd/elg – Þennan mink fann vegfarandi í Innri-Njarðvík í síðustu viku. Kvikindið var þá þegar dautt en nái maður mink getur maður fengið greitt 3000 krónur „fyrir skottið” eins og það er kallað.