Minjastofnun segir Brautarnesti hafa sögulegt gildi
Bílamenning og sjoppur eftirstríðsáranna er hluti af sögu þjóðarinnar á 20. öld. Þetta segir Minjastofnun Íslands við fyrirspurn vegna húsnæðis Brautarnestis í Keflavík. Lög um menningarminjar ná ekki yfir húsnæði Brautarnestis sem nú stendur til að rífa en Reykjanesbær hefur fest kaup á húsnæðinu og ætlar að útbúa bílastæði fyrir leikskólann Tjarnarsel á lóðinni.
Minjastofnun segir lítið hafi verið hugað að minjum sem tengjast þessari menningu, þær eru flestar horfnar eða eru að hverfa. Húsnæði Brautarnestis hefur mikið sögulegt gildi fyrir Keflavík og væri eftirsjá ef hún hyrfi, segir stofnunin. Minjastofnun Íslands segist styðja eindregið að a.m.k. framhluti hússins verði varðveittur og honum fundið nýtt hlutverk og staður.