Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Miltisbrandssvæðið girt af
Fimmtudagur 7. apríl 2005 kl. 15:52

Miltisbrandssvæðið girt af

Nú er byrjað að girða í kringum staðinn þar sem miltisbrandssýking kom upp við bæinn Sjónarhól á Vatnsleysuströnd í desember í fyrra. Þrjú hross drápust úr miltisbrandssýkingunni og einu var lógað. Hræin voru brennd á staðnum og síðan stóð til að girða hættusvæðið innan nokkurra daga þar sem mikilvægt þótti að halda öllum skepnum fjarri. Það er fyrst núna í aprílmánuði sem hafist er handa við að girða svæðið af.

Það má vera að mönnum hafi þótt erfitt að ákveða nákvæmlega hvar ætti að láta girðinguna liggja því ástæður miltisbrandssýkingarinnar í hrossunum eru ókunnar - ekkert fannst í jarðvegs- og vatnssýnum sem tekin voru á svæðinu. Málið allt er því nokkur ráðgáta því jarðrask hefur ekkert verið á jörðinni nema landbrot vegna brims, segir á vef Vísis nú í vikunni.

Enginn búskapur hefur verið á Sjónarhóli síðan árið 1960 en þrjár fjölskyldur eiga jörðina. Höfðu nokkrir sýnt henni áhuga þar til þetta mál kom upp en verðgildi jarðarinnar hefur að vonum rýrnað þar sem ekki er talið ráðlegt að hafa skepnur á beit í landinu. Hins vegar er ekki talið að mönnum stafi nokkur hætta af því að ferðast þar um, segir í fréttinni.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024