Milljónatjón unnið á skála Íslendings
Mikið tjón var unnið á sýningarskála Íslendings á Fitjum um helgina þar sem fjórar stórar rúður og þrjár minni voru mölvaðar.
Tjónið uppgötvaðist síðdegis í dag en að sögn Gunnars Marels Eggertssonar skipstjóra Íslendings, hleypur tjónið á milljónum þegar allt er tekið með í reikninginn, efniskostnaður, vinna og tafir á verkefninu.
Skemmdarfýsnin hefur verið ótrúleg hjá þeim sem þarna voru að verki því glerið í rúðunum er hnausþykkt og tvöfalt að auki. Það má líka segja að viðkomandi hafi verið ljónheppnir að valda sér ekki líkamstjóni því glerbrotin voru mörg heljarstór. Þarf ekki að fjölyrða um hvað gæti gerst þegar margra kílóa glerfleki, hárbeittur í ofanálag, fellur á mann úr tveggja til þriggja metra hæð.
Gunnar var orðlaus yfir þessum atburði þegar Víkurfréttir hittu hann fyrir. Kvaðst hann vera búinn að kæra verknaðinn til lögreglu og vill biðja þá sem hafa orðið varir við grunsamlegar mannaferðir í nágrenninu að láta lögreglu vita í síma 420 1800.
Fram að þessu hafði bygging skálans gengið afar vel og stefndi allt í að framkvæmdum yrði lokið í ágúst og yrði skipið þá flutt þar inn. Gunnar sagði þó að þessi leiðindi breyttu engu um að aðstandendur Íslendings ætluðu að halda sínu striki.
VF-myndir/Þorgils - Gunnar Marel á vettvangi.