Milljón sinnum kíkt á Keili og Fagradalsfjall
Um ein milljón innlita var á vefmyndavél Víkurfrétta sem vaktaði Keili og Fagradalsfjall með sjónarhorni frá Reykjanesbæ. Útsendingar hófust á fésbókarsíðu Víkurfrétta þann 1. mars en voru fljótlega færðar yfir á Youtube-rás Víkurfrétta þar til þeim var hætt tímabundið í gær.
Mikill áhugi var á streyminu strax frá upphafi en fyrstu hugmyndir vísindamanna voru að gos kæmi upp á svæði milli Keilis og Fagradalsfjalls. Það voru kjöraðstæður fyrir vefmyndavél Víkurfrétta. Gosið ákvað hins vegar að laumast upp úr jörðu handan við hæðir Fagradalsfjalls en vefmyndavél Víkurfrétta greinir aðeins bjarma og gosmóðu frá þeim stað.
Við steymið sköpuðust oft fjörugar umræður en jarðfræðinördar víðsvegar um heiminn fylgdust náið með öllu sem fyrir augu bar. Minnstu hreyfingar voru túlkaðar og spáð í hlutina fram og til baka.
Þegar gosið svo kom upp utan sjónsviðs myndavélar Víkurfrétta tóku aðrir við keflinu en RÚV streymir nú allan sólarhringinn frá gosinu í Geldingadölum með myndarbrag þá er t.a.m Viðburðastofa Vestfjarða farin að sýna beint frá gosinu.
Við hjá Víkurfréttum bíðum átekta og ef kvikugangurinn opnast nær Keili þá er myndavél Víkurfrétta aftur komin í kjörstöðu og verður sett í gang að nýju.
Að neðan má sjá beint streymi frá eldgosinu.