Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Milljarður sparast á allri brautinni
Mánudagur 4. nóvember 2002 kl. 16:32

Milljarður sparast á allri brautinni

- segir áhugahópur um örugga Reykjanesbraut

Þetta eru frábær tíðindi og góðar tölur. Frá því að borgarafundurinn frægi var haldinn fyrir tæpum tveimur árum höfum við haldið því fram, eftir fjölmarga fundi með verktökum, að tilboð í Reykjanesbraut yrði að minnsta kosti 30% undir kostnaðaráætlun. Sú spá okkar rættist í dag og gott betur en lægstu verð eru allt að 40% lægri en kostnaðaráætlun Vegagerðarinnar, segir Steinþór Jónsson hjá áhugahópi um örugga Reykjanesbraut við Víkurfréttir.Miðað við að í dag var tilboð í fyrsta áfanga, 8,6km og 2 gatnamót, opnað má gera ráð fyrir að heildarkostnaður við tvöföldun Reykjanesbrautar þ.e. 24km með 5 gatnamótum verði á bilinu 2,2 - 2,5 milljarðar eftir því hvort notað verður malbik eða steypa. Í þessari tölu er búið að taka tillit til aukakostnaðar Vegagerðarinnar en hún leggur til hönnun svo og efnistökugjöld.

Kostnaðaráætlun Vegagerðarinnar í fyrsta áfanga var á bilinu 9,9 - 10,9 milljarðar og er því ljóst að sparnaður þjóðfélagins við heildarverkið getur numið allt að einum milljarði króna sé miðað kostnaðaráætlun. Áhugahópurinn því mikilvægt í ljósi þessarar góðu niðurstöðu að flýta framkvæmdum sem kostur er og bjóða lægstbjóðanda að ljúka verkinu á sömu einingaverðum. Ljóst má vera að allar ytri aðstæður gefa tilefni til að svo megi vera.

Áhugahópurinn mun því sem áður beita sér við þingmenn kjördæmisins til að tryggja að fjármagn verði veitt til að ljúka verkinu við næstu Vegaáætlun. Þá munum við einnig kalla eftir loforðum sem sett voru fram m.a. af þingmönnum um að raunhæft væri að ljúka verkinu á árinu 2004 ef tilboð yrðu hagstæð og undir kostnaðaráæltun. Niðurstaða dagsins gefur vissulega tilefni til að þessi loforð geti ræst.

Nú geta landsmenn glaðst með áhugahóp um örugga Reykjanesbraut yfir að draumur er að verða af veruleika, segir Steinþór að lokum.

Myndin: Steinþór Jónsson afhendir Sturlu Böðvarssyni samgönguráðherra skóflu til að taka fyrstu skóflustunguna að tvöföldun brautarinnar á fjölmennum borgarafundi í fyrra. VF-mynd: Páll Ketilsson
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024