Millilenda á Mánagrund
Gæsahópar á leið úr landi nýta sér aðstöðu á Mánagrund til að millilendingar. Þar kroppa þær í svörðinn áður en haldið er áfram til vetrarstöðva sinna. Stórir gæsahópar komu inn til lendingar á Mánagrund í morgun en höfðu stuttan stans, þegar meðfylgjandi mynd var tekin.
Gæsirnar eru varar um sig og engu líkara en þær séu meðvitaðar um veiðimenn sem eru á eftir þeim á þessum árstíma.
Ljósmyndari Víkurfrétta þarf einnig að vera meðvitaður um að vera ekki grunsamlegur með myndavélina nálægt gæsahópunum. Fyrir nokkrum árum var ljósmyndarinn stöðvaður af lögreglu skammt frá Mánagrund. Lögreglu hafði nefnilega verið tilkynnt um veiðimann með byssu með öflugum sjónauka að skjóta gæsir út um bílglugga á Mánagrund. Engin var byssan en sjónaukinn reyndist vera aðdráttarlinsan á myndavél ljósmyndarans.
VF-mynd: Hilmar Bragi