Miklar skemmdir í skógarrjóðri í Vatnsholti
Þrjú af stærstu grenitrjánum í skógarlundi á Vatnsholti í Keflavík hafa verið eyðilögð af einstaklingum, sem af ummerkjum að dæma, hafa ætlað sér að byggja trjáhús.
Garðyrkjustjóra Reykjanesbæjar var tilkynnt um skemmdarverkið í morgun. Hann segir ljóst að trén þrjú séu dauð, enda hafi greinar verið sagaðar af þeim og það sem verra er, börkurinn hefur verið tekinn af stofnunum. Spítur eru uppi í trjánum og þar hefur smíðavinnan verið byrjuð og grunnur lagður að gólfi í trjáhúsið.
Ekki er mikil trjáhúsamenning á Íslandi og því spurning hver sé kveikjan að þeirri hugmynd að byggja kofa uppi í trjánum á Vatnsholtinu.
Teiknimyndapersóna eins og Bart Simpson á trjáhús en það þarf voldugri tré en þau sem er að finna í Vatnsholtinu til að bera slík hús.
Víkurfréttir hafa verið beðnar um að koma því áfram til foreldra barna um að þau ræði það við börnin sín að þau sýni gróðri virðingu. Þessi saklausa hugmynd um að byggja kofa uppi í tré í Vatnsholtinu hefur hins vegar valdið því að fella þarf þessi þrjú stóru tré og eins og staðan er í dag er ljótt sár í skógarrjóðrinu.
Meðfylgjandi myndir voru teknar í skógarrjóðrinu í Vatnsholti nú í hádeginu og segja meira en mörg orð um skemmdirnar sem unnar hafa verið á rjóðrinu.
Víkurfréttamyndir: Hilmar Bragi Bárðarson