Miklar samgöngubætur á Suðurnesjum
Í kjölfar ákvörðunar ríkisstjórnarinnar á síðasta ári að leggja einn milljarð króna í almenningssamgöngur á Íslandi hafa 29 milljónir króna komið aukalega til málaflokksins á Suðurnesjum og því hefur Samband sveitarfélaga á Suðurnesjum 49 milljónir króna í ár til að efla samgöngur í héraði við höfuðborgarsvæðið.
Samgöngur milli Suðurnesja og höfuðborgarsvæðisins verða efldar með því að tveimur ferðum á dag verður bætt við frá Suðurnesjum og þannig fyllt í gat sem var í áætluninni. Nýjar ferðir eru frá Reykjanesbæ kl. 10:30 og 13:00 og einnig eru nýjar ferðir frá Reykjavík kl. 13:00 og 17:00.
Ásmundur Friðriksson, verkefnisstjóri, segir að með þessu sé verið að svara ákveðinni þörf. Vonast er til að nýju tímarnir verði til að auka farþegafjöldann en ekki bara dreifa þeim fjölda sem notar samgöngumátann í dag.
Auk þess að fjölga ferðum frá Reykjanesbæ, þá verður ferðum úr Vogum og Grindavík að Reykjanesbrautinni fjölgað. Markhópurinn í þessum farþegaflutningum er annars vegar skólafólk og hins vegar fólk sem stundar atvinnu á höfuðborgarsvæðinu. Tíðar ferðir milli Suðurnesja og höfuðborgarsvæðisins eru einnig kostur fyrir þá sem þurfa að leita sér lækninga eða ná í aðra þjónustu. Samtals er viðbótin upp á 490 ferðir á ársgrundvelli á virkum dögum.
Samhliða fjölgun ferða þá er Samband sveitarfélaga á Suðurnesjum að taka upp samstarf við Strætó bs þann 18. mars nk., þannig að þjónustuborð Strætó bs mun þjónusta íbúa á Suðurnesjum með allar upplýsingar um samgöngur eða annað það sem fólk þarf upplýsingar um varðandi aksturinn eða jafnvel kaup á farmiðum. Þannig er núna mögulegt að kaupa t.a.m. far frá Reykjanesbæ norður til Akureyrar. Þá er samhliða breytingunum sem taka gildi 1. mars verið að taka upp skiptimiðakerfi. Allir sem taka vagn frá Suðurnesjum til höfuðborgarsvæðisins fá skiptimiða sem gildir í 90 mínútur. Þá er gert ráð fyrir því að 45 mínútur af ferðinni fari í að komast á höfuðborgarsvæðið og þá gildir miðinn þar áfram í 45 mínútur.
Ásmundur vildi taka fram að hér Suður með sjó séu menn afar ánægðir með samstarfið við innanríkisráðuneytið og Ögmund Jónasson í þessum samgöngumálum. Ásmundur sagði hann hafa staðið þétt við bakið á sveitarfélögunum hér í þessu máli og það beri að þakka.
Allar upplýsingar um ferðir er að finna á vefsíðunni REXBUS.IS. Einnig má finna upplýsingar á síðu SBK og hjá sveitarfélögunum.