Miklar framkvæmdir á lóð netþjónabús á Ásbrú
Miklar framkvæmdir eru nú á lóð netþjónabús Verne Holding á Ásbrú. HS Veitur hafa verið að leggja nýjar lagnir um svæðið og færa til stofna sem liggja um lóð netþjónabúsins. Þá hafa Íslenskir Aðalverktakar síðustu vikur verið að grafa fyrir grunnum varaaflstöðva sem reistar verða á svæðinu. Þá hefur frá því í vetur verið unnið að því að rífa innan úr gömlum vöruhúsum Navy Exchange. Húsnæðið er nánast fokhelt í dag en um er að ræða 25.000 fermetra skemmur. Búið er að samþykkja deiliskipulag á svæðinu, segir á vef Ásbrúar, www.asbru.is og þar vitnað til fréttar í Fréttablaðinu í dag.
Allt hefur verið rifið innan úr tveimur skemmum sem nota á í fyrsta áfanga í netþjónabúi Verne Holding. Fyrirtækið hefur tækifæri til að stækka við húsnæðið í síðari áföngum.
Gríðarmiklum búnaði verður komið fyrir inni í húsunum. Skemmurnar eiga að hýsa öflug kæli- og varaaflskerfi, tölvubúnað, netþjóna og gagnageymslur fyrir alþjóðlega stórnotendur. Verne Holding mun útvega þeim örugga aðstöðu, orku og nettengingar. Meðal þeirra sem gætu notfært sér þessa þjónustu eru netveitur, fjármálafyrirtæki, smásölufyrirtæki og kvikmyndaver.
Egill Sigmundsson, forstöðumaður hjá Hitaveitu Suðurnesja, segir að lóð Verne nái yfir gamlar götur. Undir þessum götum séu lagnir og þær hafi starfsmenn hitaveitunnar þurft að færa út fyrir lóð Verne. Í fyrstu áföngum muni Verne nýta gömlu lagnirnar.
Fréttablaðið segir erfitt er að fá upplýsingar um framkvæmdir Verne Group og framgang þeirra hér á landi, til dæmis það hversu margir starfsmenn koma að framkvæmdunum. Lisa Rhodes, talsmaður Verne Global í Bandaríkjunum, er sú eina sem má gefa upplýsingar. Hún staðfestir að framkvæmdirnar standi yfir en vill ekkert segja að öðru leyti.
Verne kaupir 25 megavött af rafmagni af Landsvirkjun en félagið hefur samið við Farice um flutningsrými á Farice-1-sæstrengnum og Danice-strengnum, sem á að leggja, á samtals 160 gígabit á sekúndu.
Fjárfesting félagsins hér á landi næstu fimm árin nemur tuttugu milljörðum króna. Stefnt er að því að starfsemi hefjist sumarið 2010 og er vonast til að 100 störf skapist. Verne Holding er í eigu Novators, fjárfestingarfélags Björgólfs Thors Björgólfssonar, og bandaríska fjárfestingarsjóðsins General Catalyst Partners, segir í frétt Fréttablaðsins sem www.asbru.is vitnar til.
Víkurfréttamyndir: Hilmar Bragi Bárðarson