Mikki refur veldur usla
Einkennileg uppákoma átti sér stað í leik á Íslandsmóti unglinga sem nú fer fram á Hólmsvelli í Leiru. Ungur kylfingur var að slá sitt fyrsta högg af þriðju braut sem ber nafnið Bergvíkin. Höggið var ágætt en endaði í glompu fyrir framan flötina. Þegar næsti kylfingur ætlaði að slá sitt fyrsta högg sáu þeir þegar tófa stökk út úr grjótvarnargarðinum og tók sprettinn í átt að glompunni. Unga stráknum, sem átti boltann í glompunni, leist ekki á blikuna þegar tófan tók upp golfboltann með kjaftinum og hélt sinn veg. Samkvæmt reglum Golfsambands Íslands fékk strákurinn „frídropp“ og tapaði þar afleiðandi ekki á þessu uppátæki rebba.
Myndin: Tófurnar voru að leika sér í glompum vallarins þegar ljósmyndari Víkurfrétta var að mynda Landsmót unglinga VF-myndin/Atli Már Gylfason