Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

„Mikilvægur liður í bataferlinu að snúa aftur“
Fimmtudagur 4. nóvember 2004 kl. 16:01

„Mikilvægur liður í bataferlinu að snúa aftur“

„Ég hef það bara stórfínt og það er alveg frábært að vera kominn heim í svala og góða loftið,” segir Steinar Örn Magnússon friðargæsluliði sem særðist í sprengjuárás afganskra skæruliða fyrir skömmu. Steinar starfar sem slökkviliðsmaður á Keflavíkurflugvelli en er í Afganistan á vegum íslensku friðargæslunnar.

Steinar hefur ákveðið að halda á ný til Afganistan til þess að ljúka verkefni sínu þar. „Fjölskyldan hefur tekið ákvörðun minni um að snúa aftur til Afganistan vel en hafa ítrekað það við mig að fara varlegar í þetta skiptið,” sagði Steinar sem tók þó fram að ytra sé varkárni gætt í hvívetna.
„Ég hugsa að það sé mikilvægur liður í bataferlinu að snúa aftur og ljúka því starfi sem ég tók mér fyrir hendur ásamt því að hitta strákana aftur.”

Til Afganistan 10. nóvember
Steinar heldur á ný til Afganistan þann 10. nóvember og gerir ráð fyrir að koma heim þann 3. desember. „Það verður öðruvísi í þetta skiptið en þegar ég fór fyrst út, mér finnst hætturnar raunverulegri en áður eftir að hafa upplifað svona sprengjuárás,” sagði Steinar sem kominn er í göngugifsi og kemst nú allra sinna leiða.

Friðargæsluliðum vel tekið
Eftir veru sína í Afganistan hefur Steinar kynnst menningunni þar í landi og segir að ógnin sem að fólki stafi sé frá minnihlutahópum, langflestir heimamenn taki vel á móti friðargæsluliðum og starfsmönnum alþjóðastofnanna. „Það er ótrúlegt að koma vopnaður og í herklæðum út af vellinum þar sem við dveljum í Kabúl og sjá fólk veifa manni og snúa þumalputtum í átt til himins, það er enginn vafi á því að mikill meirihluti fólksins í Afganistan er ánægt með veru okkar þarna,” sagði Steinar í samtali við Víkurfréttir.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024