Mikilvægt er að standa vörð um starfsemi HSS
Aðalfundur Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum haldinn í Reykjanesbæ um nýliðna helgi ályktaði m.a. um heilbrigðisþjónustu.
Heilbrigðisþjónusta er ein af mikilvægustu grunnstoðum sérhvers samfélags, segir í ályktun fundarins.
Heilbrigðisstofnun Suðurnesja gegnir mikilvægu hlutverki í samfélagi þeirra 21 þúsund íbúa sem búa á Suðurnesjum. Öflug heilsugæsluþjónusta, slysa- og bráðaþjónusta, sérfræðiþjónusta og öldrunarþjónusta ásamt öflugri dag- og göngudeildarþjónustu eru mikilvægustu þættirnir.
Mikilvægt er að standa vörð um starfsemi HSS og tryggja stofnuninni nauðsynlega fjármuni til að rækja hlutverk sitt á svæðinu og íbúum þess til heilla.
Aðalfundur SSS hvetur stjórnvöld til að efla starfsemi HSS og tryggja fjárhagslegt öryggi stofnunarinnar. Öflug heilbrigðisstofnun með metnaðarfulla og faglega starfsemi er sú krafa sem íbúar Suðurnesja gera og vænta góðs samstarfs og skilnings heilbrigðisyfirvalda og fjárveitingarvaldsins“.