Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Mikilvægt að ungt fólk viti hvað sé í gangi
Brynjar Freyr Garðarsson, nýr formaður Heimis.
Fimmtudagur 21. mars 2019 kl. 05:00

Mikilvægt að ungt fólk viti hvað sé í gangi

-Brynjar er nýr formaður Heimis

Brynjar Freyr Garðarsson var kjörinn formaður Heimis, félags ungra sjálfstæðismanna í Reykjanesbæ, á aðalfundi félagsins sem haldinn var á dögunum. Góð mæting var á fundinn og er mikil tilhlökkun hjá nýrri stjórn að hefja störf.

Brynjar hefur verið viðloðinn starf Heimis frá árinu 2016 en þar fyrir utan er hann að klára grunnnám í lögfræði við Háskóla Reykjavíkur, starfar hjá Geysi Bílaleigu, spilar fótbolta með Njarðvík, situr í stjórn Lögréttu, félags laganema við HR, og situr einnig sem aðalmaður í íþrótta- og tómstundaráði Reykjanesbæjar. Í samtali við Víkurfréttir segir Brynjar nóg að gera hjá sér.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

„Nokkrir innan flokksins voru  búnir að pota í mig og spyrja mig hvort ég hefði ekki áhuga að taka við sem formaður Heimis. Starfið hjá Heimi er búið að vera í smá lægð síðustu ár þannig ég ákvað að slá til og bjóða fram krafta mína. Ég náði að plata þó nokkra með mér í þetta verkefni sem er framundan og stjórnin er mjög vel skipuð. Við erum á breiðu aldursbili, með mismunandi reynslu og þekkingu,” segir Brynjar en ásamt honum sitja í stjórn þau Bergur Daði Ágústsson, Elvar Þór Traustason, Geirmundur Ingi Eiríksson, Guðni Ívar Guðmundsson, Hermann Nökkvi Gunnarsson, Júlíus Viggó Ólafsson, Kristín Fjóla Theódórsdóttir, Páll Orri Pálsson, Ragnar Snorri Magnússon, Sigga Sanders og Súsanna Edith Guðlaugsdóttir.

„Ný stjórn kemur saman núna á næstunni og þar munum við fara yfir árið og byrja að skipuleggja þá viðburði sem við ætlum okkur að halda. Við viljum fyrst og fremst efla pólitískt starf og gera það áhugavert. Pólitík er og hefur undanfarin misseri ekki verið í miklum vinsældum hjá landsmönnum en pólitík snertir aftur á móti alla og ég tel það mikilvægt að fólk, þá sérstaklega þeir sem yngri eru, viti hvað sé í gangi. Það eru alltaf einhverjir hlutir til umræðu sem snerta mann á einn eða annan hátt. Við stefnum á að halda einhverja málfundi, fara í heimsóknir og upplýsa fólk um starfið og það sem við erum að gera.”