Mikilvægt að tryggja afhendingaröryggi raforku til Suðurnesja
Bæjarráð Sveitarfélagsins Voga ítrekar fyrri afstöðu um mikilvægi þess að tryggja afhendingaröryggi raforku til Suðurnesja enda um brýnt hagsmunamál að ræða. Áhyggjuefni sé að ekki hafi verið tekið tillit til sjónarmiða sveitarfélagsins sem í góðri trú, m.a. með hliðsjón af vilja íbúa, hefur lagt áherslu á að Suðurnesjalína 2 verði lögð í jörð. Þetta kemur fram í afgreiðslu bæjarráðs á kæru Landsnets vegna Suðurnesjalínu 2. Bæjarstjórn staðfesti fundargerð bæjarráðs með öllum greiddum atkvæðum.
Lagður fram úrskurður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 4. október 2021, í máli sem lýtur að kæru Landsnets á þeirri ákvörðun bæjarstjórnar Sveitarfélagsins Voga, frá 24. mars 2021, um að hafna umsókn Landsnets um framkvæmdaleyfi fyrir 220kV Suðurnesjalínu 2 sem loftlínu. Með úrskurðinum var ákvörðun sveitarstjórnar, um synjun framkvæmdaleyfis fyrir loftlínu, felld úr gildi.
Taka þarf forsendur niðurstöðu úrskurðarins til skoðunar en ljóst er að fjalla þarf um umsókn Landsnets hf. að nýju m.t.t. þeirra athugasemda og sjónarmiða sem fram koma í úrskurðinum. Þá þarf að líta til athugasemda og sjónarmiða sem fram koma í öðrum úrskurðum sem kveðnir voru upp vegna sömu framkvæmdar þar sem m.a. eru gerðar athugasemdir við álit Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar. Lagt er til að málinu verði vísað til meðferðar skipulagsnefndar.