Mikilvægt að tryggja aðgengi að hágæða neysluvatni
Sveitarfélagið Vogar hefur undanfarið átt í viðræðum við HS Veitur þess efnis að tekið verði í notkun nýtt vatnsból, sunnan Reykjanesbrautar. Sú staðsetning er álitin betri trygging fyrir gæðum vatnsins, ekki síst ef einhverskonar mengunarslys yrði á Reykjanesbraut.
Í Vogum er starfrækt vatnsveita sem er í eigu sveitarfélagsins. Vatnsveitan kaupir kalt vatn í heildsölu af HS Veitum hf., en vatnið kemur úr vatnsbóli í eigu fyrirtækisins og er staðsett í Vogavík. Skemmst er að minnast mengunar sem varð vart í vatnsbólinu sl. haust, en þá mældist lítils háttar mengun í kjölfar mikilla rigninga sem urðu í byrjun september.
Fyrirhuguð uppbygging Stofnfisks hf. í Vogavík ýtir einnig undir að vatnsból sveitarfélagsins verði fundinn nýr og öruggari staður, segir í fréttabréfi Ásgeirs Eiríkssonar, bæjarstjóra í Vogum, sem hann sendi frá sér í dag. Á síðasta fundi bæjarráðs var ákveðið að fallast á endurskoðun vatnsverðs til veitunnar. Samningur Vatnsveitunnar og HS Veitna er frá árinu 2001. Vatnsverð samkvæmt samningnum hefur einungis hækkað sem nemur vísitöluhækkun síðan þá. Mikilvægt er að trygga íbúum sveitarfélagsins aðgengi að neysluvatni í hæsta gæðaflokki og er endurskoðun samningsins liður í því.