Mikilvægt að skapa sjávarútvegi á Suðurnesjum góð rekstrarskilyrði
Jón Bjarnason sjávarútvegsráðherra fundaði með fulltrúum sveitarfélaga á Suðurnesjum á mánudagsmorgun. Tilefnið var erindi sem Reykjanesbær sendi ráðuneytinu 1. nóvember í fyrra, þar sem bent var á að bolfiskafli á land í Keflavík og Njarðvík (Reykjanesbæ) var um 50 þúsund tonn á ári á 6. og 7. áratug síðustu aldar og Keflavík var ein aflahæsta höfnin á Íslandi. Nú berast um 5000 tonn á land í Reykjanesbæ árlega eða um 10% af því sem áður var. Fiskvinnsluhúsin sem enn standa og gætu tekið á sig tugþúsundir tonna af hráefni, vantar sárlega hráefni og hundruð manna gætu fengið vinnu. Mikið óunnið hráefni fer frá landinu á sama tíma og enn má fullnýta betur þær afurðir sem berast á land.
Á fundinum með Jóni voru kynntar gagnlegar upplýsingar um veiðar og vinnslu á Suðurnesjum og rætt var um framkvæmd byggðakvótans. M.a. kom fram hjá Helgu Sigurrós Vigfúsdóttur hjá Fiskistofu að öfugt við Vestfirði og Snæfellsnes er verið að vinna úr meiri afla á Suðurnesjum en þar er landað. Grindavík ber höfuð og herðar yfir aðra í sjávarútveginum. Þar eru veiðar og vinnsla að skapa störf fyrir á níunda hundrað manns í þrjú þúsund manna bæjarfélagi.
Leita leiða til að efla rekstur hér
„Byggðakvóti hefur ekki fengist fyrir Reykjanesbæ þótt við uppfyllum augljóslega skilyrði um verulega skerðingu á afla og mikið atvinnuleysi. Nei, þá gildir reglan um að aðeins undir 1500 manna byggðarlög fái úthlutað, hafi þau lent í vanda vegna samdráttar í sjávarútvegi. Magnið sem úthlutað er í byggðakvóta myndi heldur ekki umbreyta stöðunni þótt allt hjálpi. En allt eru þetta lög og reglugerðir sem íslenskir menn stjórna og geta breytt, ef vilji er fyrir hendi,“ segir Árni Sigfússon, bæjarstjóri í Reykjanesbæ.
„Ég er ánægður með fundinn þótt auðvitað hafi ráðherrann ekki komið með lausnir á færibandi. Niðurstaða fundarins var sú að við erum sammála um að fara í athugun á því hvernig megi betur fullvinna aflann um leið og tryggt verði að honum verði öllum komið í land. Menn vilja leita leiða til að efla rekstur hér með þeim hætti. Þetta er sameiginlegt verkefni sveitarfélaganna á Suðurnesjum í samstarfi við ráðuneytið. Jón Bjarnason var skýr og rökfastur á fundinum og ég skildi hann fullkomlega. Sjávarútvegurinn hefur verið stóriðja sjávarplássanna – sú stóriðja nánast hvarf frá Keflavík fyrir 20 árum en hefur samt alla burði til að eflast að nýju,“ sagði Árni við Víkurfréttir.
Sigrún Árnadóttir, bæjarstjóri í Sandgerði tók undir með Árna og sagði að fundurinn með sjávarútvegsráðherra hafi verið gagnlegur og upplýsandi. „Við hér á Suðurnesjum fengum gott tækifæri til að kynna okkar sjónarmið, stöðu og þróun sjávarútvegs hér. Gert er ráð fyrir að framhald verði á umræðum milli aðila sem vonandi verður til hagsbóta fyrir svæðið,“ sagði Sigrún.
Vantar hráefni til vinnslu
„Fundurinn með sjávarútvegsráðherra var góður upplýsingafundur en eins og þeir sem til þekkja kemur byggðarkvóti ekki til með að bjarga einu eða neinu hér á Suðurnesjum frekar en á öðrum stöðum á landinu. Kvótinn hefur verið notaður eins og fram kom á fundinum með fyrirtækinu á Flateyri á sl. ári, öllu heldur misnotaður,“ sagði Ásmundur Friðriksson, bæjarstjóri í Garði.
Á fundinum kom fram að almennt er vandamálið hjá smærri fiskverkendum sem mikið er af hér á Suðurnesjum að þá vantar hráefni til vinnslu. Á milli 50-60.000 tonn eru flutt út í gámum af ferskum óunnum fiski og þá hefur leigumarkaður dottið niður sem hefur haft mikil áhrif á framboð á mörkuðum og möguleikum minni fiskverkenda til að verða sér úti um hráefni. Úthlutaður byggðarkvóti er 4500 þorskígildi eða 6-7000 tonn upp úr sjó.
Auki kvóta til vinnslu innanlands
„Hérna eru tölurnar og tonnin sem skipta máli. Við erum að biðja um helming af útflutningi í aukningu kvóta til að koma málum í lag. Mikilvægt er að ráðherrann auki kvóta og hann verði til vinnslu innanlands og til að efla leigumarkað með veiðiheimildir.
Ef allur „gámafiskur“ færi um íslenska fiskmarkaði mundi það skapa tugi ef ekki hundruð starfa. Hér eru tveir stórir markaðir og þar gæti mikill fjöldi manna fengið vinnu ef allur þessi afli dreifðist á markaðina. Þá skapast líka möguleiki á að útlendingar versli hér beint á mörkuðum eins og þeir gera reyndar núna. Það er heilbrigð samkeppni og er þekkt um alla Evrópu,“ sagði Ásmundur í samtali við Víkurfréttir.
Á Suðurnesjum eru mjög öflug sjávarútvegsfyrirtæki sem kaupa mikið af fiski á mörkuðum og t.d. má nefna að í Garði eru 300 manns í fiskvinnslu og veiðum eða sem svarar 20% íbúanna og þar er kvótinn 8000 tonn en unnið úr 22.000 tonnum. „Það er mjög hagstæður „viðskiptajöfnuður“ en segir líka um dugnað þeirra sem stunda vinnslu í Garðinum og við erum mjög stolt af atorkusemi þeirra.
Þá er eitt sem ekki var rætt á fundinum en ég hef bent á að spara má flutningskostnað á ferskum fiski hér innanlands sem er á leið í flug og skoða hvort ekki mætti koma upp pökkunarstöð hér við flugvöllinn en mikill kostnaður vegna flutnings á umbúðum um allt land er eitt af vandamálum útflytjenda,“ sagði Ásmundur Friðriksson, bæjarstjóri í Garði.
Öflug vinnsla og nálægð við flugvöllinn
„Þetta var fyrst og fremst ágætur upplýsingafundur. Við fengum góðar upplýsingar um stöðu veiða og vinnslu á Suðurnesjum, sem gefa til kynna að Suðurnesjamenn sækja enn sjóinn stíft og vonandi munum við gera það áfram,“ sagði Róbert Ragnarsson, bæjarstjóri í Grindavík í samtali við Víkurfréttir eftir fundinn.
Róbert sagði áberandi að á Suðurnesjum er talsvert meiri afli unninn en kemur á land. Á Vestfjörðum og Snæfellsnesi senda menn talsvert frá sér til vinnslu. „Grindvísku bátarnir eru víða um land, en mikið af þeirra afla er keyrt til Grindavíkur til vinnslu. Mikil vinnsla á Suðurnesjum hefur líklega tvær meginskýringar. Annars vegar nálægðin við flugvöllinn og hins vegar að fyrirtækin, sérstaklega í Grindavík og Garði, eru mjög öflug og halda úti vinnslu allt árið um kring. Það skapar stöðuga atvinnu fyrir vel á annað þúsund manns á Suðurnesjum. Um 300 í Garði og milli 8 og 9 hundruð í Grindavík. Í Vogum er líka talsverð vinnsla á vegum Þorbjarnar. Fyrirtækin hafa líka myndað mjög sterk viðskiptasambönd víða um heim sem þau vilja treysta og efla, sem kallar á að þau fái fisk víðar af landinu,“ sagði Róbert.
„Í ljósi þessa höfum við lagt áherslu á að þessi styrka stoð í atvinnulífinu á Suðurnesjum eigi að fá frið og svigrúm til að halda áfram að vaxa og dafna. Nóg er um óvissu og afskipti af atvinnulífinu á Suðurnesjum. Það er alltaf verið að tala um nýsköpun og næsta stóra verkefni, en við megum ekki gleyma undirstöðunni sem hefur verið til staðar allan tímann. Þessar undirstöður hafa líka stutt mörg nýsköpunarverkefni, og þá sérstaklega í áframvinnslu á sjávarafurðum,“ segir Róbert Ragnarsson.
Um byggðakvóta sagði Róbert þetta: „Byggðakvótinn virkar þannig að hann er að mestu tekinn af því aflamarki sem er til staðar í bolfiski. Það er því í raun verið að færa verðmæti og störf milli svæða, en ekki skapa ný. Við, eins og Garðmenn, teljum að byggðakvótakerfið sé ekki lausn á vanda nokkurs svæðis. Byggðakvóti ætti að vera neyðarráðstöfun. Nokkurskonar lyfjagjöf til byggða í sárum. Hins vegar virðist lyfjagjöfin vera orðin nokkuð stöðug og viðvarandi til ákveðinna svæða, sem bitnar á svæðum eins og okkar. Mér sýnast ýmis ákvæði í reglugerðinni, svo sem um stærð byggðarlaga taka mið af stöðu mála á ákveðnum svæðum, sem líklega eru ríkinu betur þóknanleg. Ég kallaði eftir upplýsingum um heildarúttekt eða árangursmat á byggðakvótakerfinu, en það virðist engin slík úttekt hafa farið fram. Mér finnst það ótrúlegt í ljósi umfangsins og hve lengi þetta kerfi hefur verið við lýði,“ sagði Róbert.
Notkun fjölfosfata hagsmunamál fyrir Grindavík
Róbert nefnir einnig annað hagsmunamál saltfiskframleiðenda í Grindavík: „Það hefur heldur ekkert mat farið fram á áhrifum þess að banna notkun fjölfosfata í saltfiskvinnslu á Íslandi. Íslenskir saltfiskframleiðendur hafa notað þetta hjálparefni í um 10 ár, með þeim árangri að íslenskur saltfiskur er verðmætari en t.d. norskur saltfiskur. Efnið er nýtt í ýmsa aðra matvælavinnslu í dag. Í saltfiski dregur það úr þránun, þannig að hvíti liturinn heldur sér betur og fiskurinn verður verðmætari. Efnið skolast að langmestu leyti úr fiskinum fyrir notkun, þannig að efnið er ekki aukaefni heldur hjálparefni við vinnslu“.
Róbert sagðist vonast til þess að þessi fundur væri fyrsta skrefið í auknu upplýsingaflæði og samskiptum milli Suðurnesja og ríkisins um sjávarútvegsmál. Sjávarútvegur er stærri atvinnuvegur á Suðurnesjum en margir gera sér grein fyrir og mikilvægt fyrir heimamenn að hlú að honum og skapa góð rekstrarskilyrði.