Mikilvægt að ríki og landshlutar tali saman
Það var fjölmennur hópur fulltrúa Suðurnesja sem tók þátt í samtali um stefnu ríkisins í landshlutum, á ráðstefnu sem haldin var í Hveragerði á dögunum.
Fulltrúar Markaðsstofu Reykjaness, Heklunnar, Reykjanes Geopark, Miðstöðvar símenntunar á Suðurnesjum og Sambands sveitafélaga á Suðurnesjum tóku þátt í ráðstefnu og vinnustofu þar sem 100 manns mættu hvaðanæva af landinu. Þeirra á meðal voru fulltrúar ráðuneyta, fulltrúar ýmissa stoðstofnanna, fulltrúar markaðsstofa landshlutanna, atvinnuþróunarfélaga og fulltrúar Sambands íslenskra sveitarfélaga.
Keflvíkingurinn Eva Þóra Karlsdóttir hélt einnig fróðlegt erindi um uppbyggingasjóð EES á ráðstefnunni, en Eva starfar sem samskiptafulltrúi hjá sjóðnum í Brussel.
Þetta var í fyrsta sinn sem slík ráðstefna er haldin. Í lok ráðstefnu höfðu vinnuhóparnir komist að því að mikilvægt er að samtal milli allra þessarra aðila eigi sér stað og má því búast við að leikurinn verði endurtekinn.
Til umfjöllunar voru hinar ýmsu stefnur ríkisins og hvernig samþætta má þær starfi í landshlutum.
Efnisflokkar ráðstefnunnar voru: Samþætting áætlana, uppbyggingasjóður EES, stefnur í bígerð, umhverfis- og skipulagsmál, menning, uppbygging mannauðs og atvinnuþróun og nýsköpun.
Á myndinni eru frá vinstri: Eyþór Sæmundsson frá Markaðsstofu Reykjaness, Dagný Gísladóttir frá Heklunni, Berglind Kristinsdóttir, framkvæmdastjóri SSS, Sigurgestur Guðlaugsson, verkefnastjóri viðskiptaþróunar hjá Reykjanesbæ, Björk Guðjónsdóttir frá Heklunni, Þuríður H. Aradóttir Braun, forstöðumaður Markaðsstofu Reykjaness og Daníel Einarsson, forstöðumaður Reykjanes Global Unesco Geopark.