Mikilvægt að ná niðurstöðu í viðræðum við Norðurál sem fyrst
„Við viljum endilega fá niðurstöðu í þetta mál sem fyrst og helst myndum við viljum ljúka því þannig að haldið verði áfram uppbyggingu álvers í Helguvík," segir Júlíus Jónsson, forstjóri HS Orku aðspurður í viðtali í Viðskiptablaðinu.
„Það er enn verið að ræða saman þessa dagana. Vandamálið í dag snýr helst að því að álverð er í kringum 1.800-1.900 Bandaríkjadalir á tonn. Með slíku verði sé ég ekki fyrir mér að þeir geti rekið arðbært álver og við á sama tíma arðbærar virkjanir. Þetta er ekki að skapa tekjur til að ganga upp. Miðað við það sem þeir eru viljugir til að greiða fyrir orkuna þá gengur það ekki upp hjá okkur og miðað við það sem við þurfum að fá greitt þá gengur það ekki upp hjá þeim. En við þurfum að reyna til þrautar að finna ásættanlega lausn fyrir báða aðila. Þetta er kaldi veruleikinn sem við erum að fást við og spár um álverð gefur ekki til kynna að það muni hækka að raunvirði í nánustu framtíð. En viðræður eiga sér enn stað."
Það má þó geta þess að á meðan samningur er í gildi við Norðurál er HS Orka ekki í stakk búin til að eiga í viðræðum við aðra aðila um sölu á orku. Júlíus segir það vera vonlausa stöðu til lengdar og því sé mikilvægt að ná niðurstöðu í viðræðum við Norðurál sem fyrst.
Ragnar Guðmundsson, forstjóri Norðuráls sagði í viðtali fyrr í vor að vilji væri allt sem þyrfti til að klára samninga um orkusölu og ef þeir næðust væri hægt að fara í framkvæmdir á fullu á þessu ári. Álverð hefur verið lágt síðustu mánuði og því virðist það ekki vera stærsta atriðið hjá Norðuráli.
Hér má sjá úrdrátt úr viðtali Frjálsrar Verslunar við Ragnar sem VF birti nýlega.