Mikilvægt að ferlið tefjist sem minnst
Óskað hefur verið eftir heimild til breytingar á aðalskipulagi við hafnarsvæðið í Njarðvík en stefnt er að uppbyggingu við Njarðvíkurhöfn og nærsvæði með stækkun skipasmíðastöðvar, nýjum viðlegukanti og þjónustubyggingum.
Áform um stækkun hafa verið á döfinni í nokkurn tíma en komið hefur fram leið til að hefja uppbygginguna hraðar og hagkvæmar en áður var talið en mikilvægur hluti þess er að ferlið tefjist sem minnst. Þetta kemur fram í gögnum umhverfis- og skipulagsráðs Reykjanesbæjar sem fundaði á fjarfundi í síðustu viku.
Óskað er heimildar fyrir breytingar á aðalskipulagi fyrir þetta svæði og að gert verði nýtt deiliskipulag, ásamt matsskyldu fyrirspurn, með sömu afmörkun og kemur fram í áætlun Kanon arkitekta og VSÓ ráðgjafar dagsett í október 2020. Jafnframt verði veitt heimild til að unnið verði rammaskipulag sem tæki til alls hafnarsvæðisins (H4) og athafnasvæðis (AT9). Einnig er unnið að heildarendurskoðun aðalskipulags þar sem hafnarsvæðið er skilgreint nánar og sú breyting sem unnin er núna verði felld þar undir þegar endurskoðun er lokið. Erindið var samþykkt á fundi ráðsins.