Mikilvægt að bæta ímynd Suðurnesja
„Sem Suðurnesjamanneskja þá mun ég að sjálfsögðu beita mér eins mikið og ég get fyrir hagsmuni okkar svæðis á öllum sviðum. Ég er fædd og uppalin í Njarðvík, þekki þetta svæði því vel og þykir óendanlega vænt um svæðið og fólkið hér. Hér er mikil gróska og miklir möguleikar og fullt af góðu og dugmiklu fólki. Við verðum að vera dugleg að sýna hvað í okkur býr og halda áfram að bæta ímynd okkar frábæra svæðis,“ segir Silja Dögg Gunnarsdóttir, sem samkvæmt nýjustu skoðanakönnunum er floginn inn á Alþingi Íslendinga sn hún skipar 2. sæti á lista Framsóknarflokksins í Suðurkjördæmi.
Silja Dögg er fædd og uppalin í Ytri Njarðvík, gekk þar í grunnskóla en lauk stúdentsprófi frá MA árið 1993. Hún er með B.A.-gráðu í sagnfræði frá HÍ en hefur starfað við ýmislegt í gegnum tíðina, m.a. sem blaðamaður, lögreglumaður, kennari, rekið minjagripafyrirtæki, svo eitthvað sé nefnt. Síðastliðin fimm ár hefur hún starfað sem aðstoðarmaður framkvæmdastjórnar HS Orku og skjalastjóri. Silja hefur verið varabæjarfulltrúi síðan 2010 í bæjarstjórn Reykjanesbæjar og á sæti í Atvinnu- og hafnaráði.
Silja Dögg er í opnuviðtali við Víkurfréttir í dag.