Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Fréttir

Mikill viðbúnaður vegna sprengjuhótunar í farþegaflugvél
Flugvélinni var komið fyrir á sérstöku svæði á Keflavíkurflugvelli. Mynd/skjáskot Rúv.
Páll Ketilsson
Páll Ketilsson skrifar
þriðjudaginn 26. júlí 2022 kl. 09:42

Mikill viðbúnaður vegna sprengjuhótunar í farþegaflugvél

Lögreglunni á Suðurnesjum hefur ekki enn tekist að hafa uppi á farþega sem skrifaði sprengjuhótun á spegil á salerni um borð í Airbus 3030-243 á leið frá Frankfurt, Þýskalandi til Seattle í Bandaríkjunum. Lögreglunni barst tilkynning um sprengjuhótun um borð þegar flugvélin var yfir Grænlandi. Vélinni þá snúið við til Keflavíkurflugvallar þar sem hún lenti kl. 16:22. Um borð voru 266 manns.

Greiðlega gekk að rýma vélina en umfangsmiklar aðgerðir sprengjusveitar sérsveitar ríkislögreglustjóra ásamt sprengjusérfræðingum Landhelgisgæslunnar sem stóðu í 5 klukkustundir, báru ekki árangur.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Engin sprengja hefur fundist og gerandinn sem skrifaði hótunartextann ekki heldur.

Úlfar Lúðvíksson, lögreglustjóri á Suðurnesjum segir að um gríðarlega umfangsmikla aðgerð sé að ræða. 

Eftir lendingu var flugvélinni komið fyrir á sérstöku svæði, svokölluðu „hot cargo“, á flugvellinum og farþegum komið fyrir á lokuðu svæði. Hluti af aðgerðum var að lögreglan ræddi við alla farþega um borð.

Samkvæmt upplýsingum fréttastofu RÚV var búið að skrifa BOMB eða SPRENGJA á spegilinn. Unnið var að því að gegnumlýsa og fara í gegnum allan farangur. Rauði krossinn var á svæðinu og veitti áfallahjálp. Úlfar sagði við Rúv í gærkvöldi ekki víst hvenær farþegarnir fengju að snúa aftur til baka og óljóst sé hvort þeir fái að gera það áður en rannsókn ljúki.

Uppfært kl. 13:20 26. júlí:

Úlfar Lúðvíksson, lögreglustjóri á Suðurnesjum segir við ruv.is að um 80 manns hafi tekið þátt í aðgerðunum, fólk frá samhæfingarmiðstöð ríkislögreglustjóra og sérsveit, sprengjusveit Langhelgisgæslunnar, Rauði krossinn, Isavia og starfsfólk tollsins. 

Rætt var við alla 266 farþegana, handfarangur þeirra skoðaður og í kjölfar þess voru einstaka hlutir úr honum teknir til skoðunar. Úlfar segir að það geti tekið langan tíma að vinna úr rannsóknargögnum, jafnvel vikur eða mánuði. Aðal atriðið var að ganga úr skugga um að engin sprengja væri um borð, á farþega eða í farangri. 

Vélinni var flogið aftur til Þýskalands á þriðjudag en farþegarnir héldu áfram ferð sinni til Seattle með annarri flugvél.