Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Mikill niðurskurður, reynt að forðast uppsagnir, ekki einkaspítali
Mánudagur 23. febrúar 2009 kl. 16:34

Mikill niðurskurður, reynt að forðast uppsagnir, ekki einkaspítali

-segir heilbrigðisráðherra sem kynnti sér starfsemi HSS og fundaði með starfsmönnum

„Við þurfum að spara 6,7 milljarða í heilbrigðiskerfinu. Það er ljóst að það verður mjög erfitt en við munum reyna að samþætta í stofnunum og gera allt til þess að til uppsagna komi ekki nema að mjög litlu leyti,“ sagði Ögmundur Jónasson, heilbrigðisráðherra á fundi með starfsmönnum Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja í morgun.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Á fundinum fór ráðherra yfir gríðarlega alvarlega stöðu mála í heilbrigðiskerfinu. Heimsókn hans til Keflavíkur hafi verið til að kynna sér starfsemi HSS. Þar þurfi að beita niðurskurðarhnífnum eins og í öðrum heilbrigðisstofnunum. „Hér er ég til að hlusta á ykkar sjónarmið og spurningar. Ég er aðeins hálfs mánaðar gamall í starfi og get því ekki svarað öllum spurningum ykkar en get þó sagt ykkur að við munum gera okkar allra besta í vægast sagt mjög erfiðri stöðu,“sagði Ögmundur á fundi sem tæplega 100 starfsmenn HSS sóttu.
 
Ögmundur sagði að það væri mikill vandi á höndum hjá stjórnvöldum. Til dæmis kosta jöklabréf fyrir um 400 milljarða á himinháum vöxtum um 5-7 milljarða á mánuði í vexti. Eitt prósent af Icesave upphæðinni nema þeim niðurskurði sem beita skuli í heilbrigðiskerfinu. Því sé það eitthvað sem sé gríðarlega mikilvægt að skoða gaumgæfilega. „Ég er hræddur um að menn hafi sett stafi sína undir fyrirheit gagnvart Icesave reikningum Hollendinga upp á ansi háa prósentu sem við hljótum að að reyna að komast úr. Miklir peningar eru í húfi. Eitt er þó á hreinu. Starfsemin verður ekki einkavædd. Þetta verður ekki einkaspítali,“ sagði ráðherra.
 
Starfsmenn voru með ýmsar spurningar til ráðherra. Forstöðukona á fæðingardeild sagði að þar þyrfti að spara um 30% sem væri um 80 milljónir króna á ári. Svipað væri upp á teningnum á Selfossi og mæður á Reykjanesi þyrftu því að fara Reykjanesbrautina á Landsspítalann. „Ef Landsspítalinn á að taka við þessari starfsemi þarf að gangast í breytingar, bæði á húsnæði og í starfsmannamálum og það kostar tugi milljóna. Er þá sparnaðurinn við flutninginn ekki farinn?“
Spurt var um framtíð Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja. Ráðherra svaraði því til að skipuð yrði nefnd með fulltrúum ráðuneytisins, HSS, hollvinasamtaka stofnunarinnar og frá sambandi sveitarfélaga á Suðurnesjum. Hann sagðist kalla eftir umræðu um málefni HSS og framtíð heilbrigðiskerfisins hér á landi. Unnið hafi verið að ýmsum hugmyndum innan ráðuneytisins óháð ráðherrum og sú vinna yrði skoðuð mjög gaumgæfilega á næstunni. Þar sé lykilatriði að horfa á landið heildstætt í þessum efnum.
Aðspurður um uppsagnir í heilbrigðisgeiranum svarði hann því til að stefnt væri að því að jafna meira kjör starfsmanna. Þeir sem hærri hefðu launin yrðu að taka meiri skerðingu á sig.

Sjá fleiri myndir frá heimsókn ráðherra í myndasafni hér á vf.is.

Viðtal við ráðherra er væntanlegt í Sjónvarpi Víkurfrétta.


VF-myndir/pket: Ráðherra með ráðamönnum HSS í morgun. Starfsmenn (á neðri mynd) hlustuðu með athygli á ráðherra.