Mikill leki í heitavatnslögninni til Grindavíkur
Vegna mikils leka bæði á stofnæðinni til Grindavíkur og í dreifikerfinu í bænum þá er þrýstingur á heitavatnslögninni mjög lágur. Leit er hafin að biluninni og reynt verður að gera við hana sem fyrst. Réttast þótti í stöðunni að grafa niður á bilunina frekar en að leggja nýja lögn yfir hraunið. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Almannavörnum.
„Það er mikil áskorun fyrir almannavarnakerfið að halda uppi hita í húsum í Grindavík. Til að koma vatni um hitakerfi húsanna við þær aðstæður sem uppi hafa verið síðustu vikur og mánuði, breyttu píparar á vegum Almannavarna stillingu þrýsijafnara í inntaksgrindum og lokuðu fyrir neysluvatn og hleyptu vatni af þeim til öryggis. Þetta var talið mikilvægt að gera því það er nánast ómögulegt að tryggja eðlilega vatnsnotkun, því smávægileg breyting á stillingu þrýstijafnara eða smávægileg breyting í þrýstingi í dreifikrefinu getur þýtt að annað hvort hætti rennsli um hitakerfi húsanna alveg eða þá að rennslið stóraukist,“ segir jafnframt í tilkynningunni.
Vegna þessa er mikilvægt að húseigendur sem fara inn í húsin sín í Grindavík hafi eftirfarandi í huga.
- Vegna mikils leka í stofnæð og dreifikerfi er mikilvægt að breyta ekki stillingum í inntaksgrind.
- Í sumum íbúðum er hiti í lægri kantinum og í öðrum er hitinn mikill. Ástæðan er sú að vegna mjög lágs þrýstings í dreifikerfinu er ómögulegt að stýra rennslinu nákvæmlega.
- Píparar á vegum Almannavarna lokuðu fyrir neysluvatn og tæmdu neysluvatnslagnir til að draga úr líkum á tjónum ef hiti færi aftur af byggðinni. Mikilvægt er að húseigendur opni ekki aftur fyrir neysluvatnslagnirnar af þessum sökum.
- Píparar á vegum Almannavarna lokuðu gluggum til að draga úr kælingu húsanna og mikilvægt er að húseigendur loki gluggum aftur þegar þeir yfirgefa íbúðir.