Mikill kostnaður við viðhald Hlévangs
- Athugasemdir gerðar við ástand húsnæðis og aðstöðu
Eftirlitsaðilar hafa gert athugasemdir við ástand húsnæðis og aðstöðu á hjúkrunarheimilinu Hlévangi í Keflavík. Framtíð Hlévangs var til umfjöllunar á fundi bæjarráðs Garðs á dögunum. Pétur Magnússon forstjóri Hrafnistuheimilanna, Hrönn Ljótsdóttir forstöðumaður Hrafnistu Hlévangi og Eysteinn Eyjólfsson formaður stjórnar DS [Dvalarheimila aldraðra Suðurnesjum] sátu fundinn undir þessum dagskrárlið.
Í erindi frá Hrafnistu á fundinum var m.a. fjallað um rekstraráhættu Hrafnistu vegna Hlévangs og mikinn kostnað vegna viðhalds hússins. Í erindinu er kallað eftir því að sveitarfélögin sem standa að DS móti stefnu um húsnæðismál Hlévangs og framtíðarnotkun, ásamt því að sveitarfélögin þurfi að standa undir kostnaði við viðhald hússins til að það fullnægi kröfum um heimili í hæsta gæðaflokki.