„Mikill hugur í Suðurnesjamönnum“
Bankaráð Landsbankans heimsótti Suðurnesin ásamt bankastjóra og framkvæmdastjórum bankans nú á dögunum. Haldinn var bankaráðsfundur í útibúi bankans í Reykjanesbæ en auk þess fór ráðið í kynningarferð um Helguvíkursvæðið og Ásbrú, skoðaði Stolt Sea Farm á Reykjanesi og átti hádegisfund með sveitarstjórnarmönnum auk þess sem forsvarsmenn Keilis kynntu starfsemi sína. Að því loknu var haldið til Grindavíkur í Fisktækniskólann, þaðan til HS Orku í Svartsengi og svo í Bláa Lónið. Deginum lauk með fjölmennri móttöku í útibúinu í Reykjanesbæ.
Tryggvi Pálsson, formaður bankaráðs Landsbankans, lýsti ánægju með ferðina, móttökur og ekki síst þann mikla kraft sem honum þótti einkenna Suðurnesjamenn í samtali við Víkurfréttir.
„Landsbankinn gegnir mjög mikilvægu hlutverki á Suðurnesjunum, það vitum við vel. Við rekum hér fjölbreytta starfsemi, hefðbundin útibú og afgreiðslur, umfangsmikla starfsemi í Leifsstöð og hluti af miðlægri þjónustu við útibúin á landinu öllu er rekin frá Reykjanesbæ. Samtals eru þetta því næstum 100 manns sem Landsbankinn er með í vinnu á þessu svæði. Við sjáum á könnunum sem gerðar hafa verið að viðskiptavinir bankans eru ánægðir með þá þjónustu sem við veitum hér og við erum þakklát fyrir það traust sem okkur er sýnt.“
Tryggvi segir heimsóknir bankaráðsins í fyrirtæki og skóla hafa verið fróðlegar og áhugaverðar. Einkennandi hafi verið hversu mikill hugur er í Suðurnesjamönnum þegar horft er til framtíðar þrátt fyrir erfiðleika síðustu ára.
„Okkur er ljóst af þessari ferð að það er heilmikil deigla hér á Suðurnesjunum þegar kemur að atvinnulífinu. Samtöl okkar við sveitarstjórnarmenn og forsvarsmenn fyrirtækja sýna að það er mikill hugur í mönnum og margar nýjar og spennandi hugmyndir í þróun. Landsbankinn er eins og alltaf reiðbúinn að styðja við raunhæfa uppbyggingu og arðbæra starfsemi og ég trúi því að bankinn og Suðurnesjamenn muni áfram eiga farsælt samstarf,“ sagði Tryggvi Pálsson, formaður bankaráðs Landsbankans við Víkurfréttir.
Myndir úr hófi Landsbankans sem haldið var í Krossmóa í Reykjanesbæ á dögunum. VF-myndir: Hilmar Bragi Bárðarson