Mikill gleðigjafi á sjúkrahúsinu í Tyrklandi
Talsvert hefur verið fjallað um hálfs árs gamlan dreng, sem komst lífs af úr hörmulegu umferðarslysi í Tyrklandi á miðvikudag. Foreldrar drengsins, Jóhann Árnason og Dagbjört Þóra Tryggvadóttir, létust í slysinu. Jóhann var úr Reykjanesbæ en fjölskyldan var búsett í Danmörku og var á ferðalagi um Tyrkland þegar slysið varð.
Drengurinn, sem heitir Daníel Ernir, var fluttur á sjúkrahús í Mugla í Tyrklandi eftir slysið. Blaðið Hürryiet hefur eftir yfirlækni á sjúkrahúsinu að drengurinn sé við góða heilsu og hafi verið mikill gleðigjafi á sjúkrahúsinu meðan hann dvaldi þar. Fréttavefurinn mbl.is vísar til umfjöllunar Hürryiet, þar sem birt er mynd af Daníel í fangi hjúkrunarkonu.
Ættingjar íslensku hjónanna sem létust í umferðarslysi í Tyrklandi á miðvikudag, hafa tekið við umsjá sonar þeirra. Hann slapp ómeiddur úr slysinu. Ræðismaður Íslands og eiginkona hans tóku við honum í gær, á meðan beðið var eftir að fulltrúar fjölskyldna hjónanna kæmu til Tyrklands.
Meðfylgjandi mynd að ofan er skjáskot af vefsíðu Hürryiet.
Jóhann Árnason og Dagbjört Þóra Tryggvadóttir, létust í slysinu.