Mikill erill hjá lögreglu og björgunarsveitum
Mikill erill hefur verið hjá lögreglu og björgunarsveitum á Suðurnesjum í kvöld vegna veðurofsans sem geysaði fram undir miðnætti. Að sögn Skúla Jónssonar hjá lögreglunni í Keflavík hafa borist útköll í allt kvöld vegna veðursins. Þau hafa verið misjöfn af stærð, allt frá smáfoki upp í fjúkandi þakplötur, trambólín og skjólveggi. Þá hafa gámar og ruslatunnur farið á flakk.
Skúli sagði að björgunarsveitarmenn hafi verið lögreglu innan handar og þakkaði fyrir þann stóra hóp sjálfboðaliða björgunarsveitanna sem tekist hafi á við fjölbreytt verkefni í allt kvöld bæði í Grindavík og Reykjanesbæ. Björgunarsveitirnar væru nauðsynlegur hlekkur í almannavörnum og þeim verkefnum sem koma upp m.a. í veðri eins og í kvöld.
Myndir:
Björgunarsveitarmenn að störfum í Grindavík í kvöld.
Ljósmynd: Hilmar Bragi Bárðarson