Mikill eldur við fiskmarkað í Sandgerði
Tilkynnt var um mikinn eld við Fiskmarkað Suðurnesja í Sandgerði nokkrum mínútum fyrir miðnætti. Slökkvilið Sandgerðis var þegar kallað út. Þegar slökkviliðsmenn komu á vettvang stóðu eldtungur upp af karastæðu á bakvið húsnæði FMS og Sandgerðishafnar og var eldhafið mikið. Mikill eldsmatur var á staðnum því fjöldi fiskikara stóð í stæðum við húsgaflinn og einnig var stór diselolíutankur nokkra metra frá bálinu.Slökkvilið Brunavarna Suðurnesja var sent til aðstoðar Slökkviliði Sandgerðis þar sem eldurinn var kominn í þakkant á húsinu og óttuðust menn að eldurinn myndi læsa sig í þak hússins. Með snörum handtökum tókst að slökkva eldinn á skammri stund en nokkurn tíma tók að rífa klæðningu af þakkantinum og slökkva í glóð sem þar leyndist.
Ljóst er að tjón er nokkuð en með snarræði tókst að koma í veg fyrir milljónatjón. Einhver reykur komst inn í móttökusal fiskmarkaðarins en hann fór fljótt þegar hurðir voru opnaðar.
Rannsóknardeild lögreglunnar í Keflavík mun fara með rannsókn málsins en fátt annað en íkveikja kemur til greina.
Myndin: Slökkviliðsmenn slökkva eld í glóð sem leyndist í þakkanti Fiskmarkaðar Suðurnesja í Sandgerði: VF-mynd: Hilmar Bragi Bárðarson
Ljóst er að tjón er nokkuð en með snarræði tókst að koma í veg fyrir milljónatjón. Einhver reykur komst inn í móttökusal fiskmarkaðarins en hann fór fljótt þegar hurðir voru opnaðar.
Rannsóknardeild lögreglunnar í Keflavík mun fara með rannsókn málsins en fátt annað en íkveikja kemur til greina.
Myndin: Slökkviliðsmenn slökkva eld í glóð sem leyndist í þakkanti Fiskmarkaðar Suðurnesja í Sandgerði: VF-mynd: Hilmar Bragi Bárðarson