Mikill baráttuhugur í kennurum á Suðurnesjum
„Þetta gæti orðið langt verkfall því það eru þarna prinsipp atriði sem ágreiningur stendur um,“ segir Unnur Kristjánsdóttir kennari í Sandgerði en Unnur situr einnig í samninganefnd Félags grunnskólakennara. Aðspurð um það hvernig henni lítist á baráttuhuginn í kennurum hér á Suðurnesjum segir Unnur að sér lítist vel á hann. Það séu hugmiklir kennarar hér og hugurinn í þeim komi sér ekki á óvart. „Ég hef numið það alveg frá upphafi að hér er mikið af óskaplega faglega metnaðargjörnum kennurum og róttækum í þessum málum. Það er líka að mörgu leyti staðið vel að skólamálum á Suðurnesjum og þar sem slíkt er gert má finna kennara eins og hér eru,“ sagði Unnur í samtali við Víkurfréttir.
Heldurðu að þetta verkfall verði langt?
Ég geri mér ekki grein fyrir því. Við bökkuðum talsvert frá því í vor þar til nú. Við höfum leitað fleiri leiða og komum til dæmis með tilboð um skammtímasamning á sunnudaginn. Við fengum tilboð frá launanefndinni í vor og síðan annað á sunnudaginn og þau tilboð voru eins.
Nú er margt sem bendir til þess að þetta verði langt verkfall. Hvað viltu segja við foreldra?
Þeir eiga samúð mína alla. Ég segi við foreldra nú eins og ég hef alltaf gert: haldið áfram að hugsa vel um börnin ykkar og þiggið þá hjálp sem möguleg er til þess. Ég vona að fyrirtækin hér séu ekki að taka fram fyrir hendur foreldra og fara að skipuleggja gæslu. En á móti er alveg sjálfsagt af foreldrum að taka sig saman um lausnir varðandi gæslu.