Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Mikill áhugi fyrir störfum á höfuðborgarsvæðinu
Miðvikudagur 5. apríl 2006 kl. 15:22

Mikill áhugi fyrir störfum á höfuðborgarsvæðinu

Suðurnesjamenn sýna mikinn áhuga á þeim störfum sem í boði eru á höfuðborgarsvæðinu og var mikil svörun við auglýsingu Ráðningarþjónustunnar í Víkurfréttum í síðustu viku, að sögn Sjafnar Vilhelmsdóttur hjá Ráðningarþjónustunni. Allgott framboð er á störfum í ýmsum greinum atvinnulífsins og segir Sjöfn að vinnumarkaðurinn ætti að geta tekið við mörgu því fólki sem missir vinnuna við brotthvarf Varnaliðsins, þ.e. ef fólk af Suðurnesjum vilji starfa á höfuðborgarsvæðinu, þar sem eftirspurn eftir vinnuafli sé mest.

Sjöfn segir að mest sé eftirspurnin eftir sölufólki, verkfræðingum, lagerstarfsfólki, skrifstofufólki og iðnaðarmönnum.
„Það eru fjölmörg störf í boði og okkar vantar fólk á skrá. Til að mæta aukinni eftirspurn frá Suðurnesjum hefur Ráðningarþjónustan hafið samstarf við Vinnumiðlun Suðurnesja í Reykjanesbæ. Þar verður boðið upp á viðtöl annan hvern fimmtudag frá og með 6. apríl", sagði Sjöfn.
Einnig er hægt að fylla út umsóknir á heimasíðu Ráðningarþjónustunnar og fara í viðtöl á skrifstofuna í Reykjavík. Í kjölfar auglýsingarinnar hefur nokkur fjöldi umsókna borist frá Suðurnesjum, að sögn Sjafnar, bæði frá starfsfólki Varnarliðsins og öðrum sem eru að hugsa sér til hreyfings á vinnumarkaði.

Sjöfn segir ennfremur að þótt nú orðið sé litið á suðvesturhornið sem eitt atvinnusvæði, sé það alltaf spurning hversu miklar vegalengdir fólk sé tilbúið að fara til að sækja vinnu. Vinnumarkaðurinn á þessu svæði ætti að geta tekið við mörgu því fólki sem missir vinnuna á næstu mánuðum við brotthvarf Varnarliðsins. „Þetta fer samt eftir því hvað fólk er tilbúið að fara í. Það getur vissulega verið óspennandi tilhugsun að fara úr vel launuðu starfi, sem þú hefur unnið þig upp í á mörgum árum, í verr launaða dagvinnu í allt annarri starfsgrein. Hins vegar mætti hugsa sér það sem millibilsástand á meðan jafnvægi er að komast á hlutina“. sagði Sjöfn.


Mynd: Talsverð eftirspurn er eftir vinnuafli á suðvesturhorni landsins, t.d. iðnaðarmönnum. Ljósm:elg

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024