Mikill áhugi fyrir kennslu með spjaldtölvum
Um 140 kennarar af Suðurnesjum og víðar af landinu ásamt öðrum sem nota iPad-spjaldtölvur í starfi tóku þátt í vinnubúðum sem Keilir, miðstöð vísinda, fræða og atvinnulífs, og Epli.is héldu sl. föstudag. Í vinnubúðunum var farið yfir möguleikana sem spjaldtölvur bjóða uppá í kennslu.
Það kom skýrt fram í vinnubúðunum að bylting í kennsluháttum er framundan. Nemendur eru fyrir löngu farnir að nýta sér spjaldtölvuna og þá möguleika sem hún veitir. Þá eru þegar til fjölmörg forrit fyrir þessar spjaldtölvur sem gera framsetningu kennsluefnis auðvelda.
Kennarar sýna þessari tækni mikinn áhuga og ekki síður þeirri kennsluaðferð sem kallað er á íslensku „speglaður skóli“. Í liðinni viku sagði Hjálmar Árnason, framkvæmdastjóri Keilis í viðtali við Ásbrúarblaðið:
„Við erum núna sem skóli að stíga mjög merkileg skref. Við ætlum að verða og ég vona að Reykjanes verði fyrsta svæðið á landinu sem markvisst tekur upp speglaða kennslu (e. Flipped Classroom).
Skólakerfið hefur í grunninn ekki breyst í hundruðir ára. Þar er hinn fróði sem stendur fyrir framan hópinn og predikar. Á sama tíma hefur tækninni fleygt fram þannig að aðgengi að upplýsingum er á netinu. Fyrirlestrarformið er deyjandi fyrirbrigði. Skólakerfið hefur staðnað mjög í kennsluháttum og við finnum það alls staðar. Allar rannsóknir sýna það og allar kannanir sýna það. Það sem hefur gerst á síðustu árum er að menn eru farnir að nýta sér tæknina og þær græjur sem nemendur eru að nota.
Hvert leita nemendur eftir upplýsingum? Þeir Googla. Skólakefið hefur lítið verið að nota það. Spegluð kennslustofa eða Flipped Classroom felst í því að þú tekur heimaverkefni þín í skólann en fyrirlesturinn fer fram heima. Það er gert með því að kennarinn, í gegnum nútímatækni sem að flestir hafa aðgang að, tekur upp fyrirlesturinn og setur hann á netið, þannig að nemandinn getur horft eða hlustað á hann aftur og aftur á þeim tíma þegar nemandinn er í stuði, hefur tíma eða nennu og getur horft á fyrirlesturinn oftar en einu sinni og oftar en tvisvar. Nemendur geta sent fyrirspurnir til kennarans, sem svarar nemendum á netinu. Þannig eru nemendurnir að læra heima með því að hlusta eða horfa á fyrirlesturinn. Svo þegar þeir koma í skólann fara þeir að vinna verkefnin sem þeir hefðu annars verið að vinna heima. Þá getur kennarinn, í stað þess að vera að messa yfir nemendum, skipt þeim í hópa eftir því hvar þeir eru staddir. Sumir eru komnir lengra og aðrir styttra. Með þessum hætti er hægt að nálgast einstaklingsmiðað nám betur en verið hefur og námið verður miklu skemmtilegra,“ segir Hjálmar.
Hjálmar segir að nokkrir skólar í Bandaríkjunum hafi reynt þetta og árangurinn þar sé ótrúlegur, hvað nemendur þar eru að skora betur á samræmdum prófum, af því að þeir fá kennslu við sitt hæfi og agavandamál og annað slíkt snarminnkar.
„Minn draumur er sá að Suðurnes verði fyrsta landssvæðið í heiminum til þess að taka þetta kerfisbundið upp. Það eru einstaka kennarar í nokkrum skólum á Íslandi að reyna þetta með mjög góðum árangri, bæði leikskólar og grunnskólar. Áhuginn, að yfir 100 manns af Suðurnesjum ætli að mæta á föstudaginn, segir mér hvernig kennarar á svæðinu eru stemmdir og hafa áhuga á þessu“.
Hjálmar segir þetta vera algjöra byltingu í kennslu og tími til kominn.
„Í stað þess að læra um markmið út frá einni kennslubók, sem er úrelt daginn sem hún kemur úr prentun, þá virkjum við nemendur með aðstoð kennara og annarra til að leita að kennsluefni á netinu, hvort sem það er á YouTube, WikiPedia, Khan Academy eða hvar sem er með því að nota leitarvélar. Við sjáum að það sem mun gerast á næstu misserum er að kennarar munu taka saman kennsluefni og geyma það í „skýinu“. Nemendur munu sjálfir leita að kennsluefni og geyma í „skýinu“ og svo fara þeir að gefa þessu kennsluefni einkunnir. Þannig erum við að nýta nemendurna sjálfa til að leita að kennsluefninu með nútímatækni. Spegluð kennsla eða Flipped Classroom snýst ekki um tæknina en nýjasta tæknin er hins vegar notuð til að gera kennsluna nútímalegri og einstaklingsmiðaðri og okkur finnst þetta mjög spennandi,“ segir Hjálmar Árnason, framkvæmdastjóri Keilis.
VF-myndir: Hilmar Bragi Bárðarson