Mikill áhugi á námi í Íþróttaakademíu Reykjanesbæjar
Mikill áhugi er á námi í íþróttafræðum í Íþróttaakademíu Reykjanesbæjar en nú þegar hafa tæplega 54 nemendur sótt um námsvist næsta vetur.
Að sögn Geirs Sveinssonar verður endanlegur nemendafjöldi að öllum líkindum um 35 en gert er ráð fyrir að ljúka samningi við Háskólann í Reykjavík um námið á næstu dögum.
Í upphafi var gert ráð fyrir að um 30 nemendur myndu stunda nám við akademíuna fyrsta árið en umsóknarfrestur rennur út í dag, 27. maí 2005.
Framkvæmdir við nemendaíbúðir eru á fullum skrið og er gert ráð fyrir að fyrstu nemendurnir geti flutt inn um næstu áramót.
Einnig verður boðið upp á afreksmannabraut í ÍAK til stúdentsprófs í samvinnu við Fjölbrautaskóla Suðurnesja en umsjón með henni hefur Sigurður Ingimundarson körfuboltamaður.
Þeir sem hafa áhuga á að sækja um námsvist í ÍAK geta farið á vef akademíunnar: akademian.is
Kom þetta fram á vefsíðu Reykjanesbæjar