Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Þriðjudagur 10. október 2000 kl. 09:48

Mikill áhugi á fitness á Suðurnesjum

Íslandsmeistaramót í Galaxy Fitness 2000, verður haldið í íþróttahúsinu við Sunnubraut í Keflavík 28. október nk. Um kvöldið verður síðan brjálað ball í Stapa með hljómsveitinni Undrið. Áhugi fyrir fitness er mikill á Suðurnesjum en níu keppendur koma héðan af svæðinu af 37 keppendum. Keppendur í kvennaflokki eru 11, en Freyja Sigurðardóttir, Íslandsmeistari í Fitness árið 1999, er eina konan af Suðurnesjum sem tekur þátt. Tuttugu og sex keppendur eru skráðir í karlaflokk og þar af eru átta keppndur frá Suðurnesjum. Sigurvegararnir taka síðan þátt í alþjóðlegu fitness móti sem verður í Laugardagshöll 4. nóvember nk, International Galaxy Fitness 2000. Kraftajötnarnir Andrés og Hjalti Úrsus hafi borið hitann og þungann að undirbúningi mótanna. Fitness er tiltölulega ný keppnisgrein á Íslandi og eru þeir félagar mjög ánægðir með vaxandi áhuga á fitness á Suðurnesjum og vilja láta breyta nafni Reykjanesbæjar úr „Bítlabæ“ í „Fitnessbæ“. „Þennan áhuga má að hluta rekja til góðs árangurs Freyju Sigurðardóttur og það var m.a. ástæða þess að ákveðið var að halda mótið hér í Reykjanesbæ að þessu sinni“, segir Andrés. Fjórar konur og fjórir karlar munu halda áfram á mótið í Laugardagshöll en keppnin þar verður án efa hörð. Keppt verður í samanburði í karlaflokki, upphýfingum og dýfum, hraðaþraut og gladiator. Konurnar fara í gegnum sömu verkefnin og karlarnir nema að þær sleppa upphýfingum og dýfingum. Fimm dómarar dæma í keppninni, þar af einn fimleikadómari, vaxtaræktardómari og dómari sem hefur dæmt í fegurðarsamkeppnum. „Fitness-útlit er eins og venjulegt fólk vill líta út í dag. Fólk vill ekki vera of þungt og þrekið núorðið“, segir Hjalti Úrsus og bætir við hlægjandi að hann og Andrés séu að verða útdauð tegund, eins og risaeðlurnar. „Keppendur koma úr öllum íþróttagreinum, m.a. úr knattspyrnu, sundi, fimleikum, fjrálsum o.fl. Það sem skiptir máli er alhliða hæfni og gott samræmi í byggingarlagi og vöðvamassa“, segir Andrés til útskýringar. Að sögn Andrésar eru Íslendingar að vissu leyti frumkvöðlar í karla fitness í Evrópu en íþróttin nýtur vaxandi vinsælda þar eins og hér. „Nú standa yfir samningaviðræður við sjónvarpsstöðvarnar Sky Sport og Euro Sport um að sjónvarpa keppninni í Laugardagshöll, en það á eflaust eftir að auka áhuga á íþróttinni enn frekar“, segir Hjalti og er bjartsýnn á framhaldið. Þeir sem vinna keppnina í Laugardagshöll 4. nóvember munu taka þátt í alþjóðlegum mótum á næsta ári í Kína, Finnlandi, Hollandi og Ameríku, svo að það er til mikils að vinna.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024