Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Mikil uppbygging í tækjabúnaði Björgunarsveitarinnar Suðurnes
Þriðjudagur 30. desember 2003 kl. 15:34

Mikil uppbygging í tækjabúnaði Björgunarsveitarinnar Suðurnes

Mikil uppbygging hefur átt sér stað á tækjabúnaði Björgunarsveitarinnar Suðurnes síðasta árið og á næstu vikum eiga meðlimir sveitarinnar von á nýjum björgunarbáti, sem staðsettur verður í smábátahöfninni í Gróf í Keflavík. Um er að ræða Atlantic 21, opinn harðbotna björgunarbát með tveimur vélum, frá Konunglega breska björgunarfélaginu. Nýi báturinn er sérhannað sjóbjörgunartæki og mun öruggara björgunartæki en núverandi bátur sveitarinnar.
Á næsta ári eru 10 ár liðin frá sameiningu Hjálparsveitar skáta í Njarðvík og Björgunarsveitarinnar Stakks í Keflavík undir merki Björgunarsveitarinnar Suðurnes. Gunnar segir sameininguna hafa skilið sér svo um munar. Það sýni best mikil uppbygging bæði í húsnæðis- og tækjamálum. Ný svokölluð sexhjól hafa verið tekin í notkun og hafa sannað gildi sitt. Kerra með fyrstuhjálparbúnaði fyrir allt að 100 manna slys og greiningarstöð í risastóru tjaldi hefur vakið heimsathygli. Þannig hefur verið spurst fyrir um það hvort sveitin geti útbúið slíkar kerrur til útflutnings. Kerran er þægileg í meðförum og hægt er að flytja hana hvert á land sem er með stuttum fyrirvara. Skiptir þá engu hvort hún er dregin af bíl, sett um borð í skip eða hreinlega hengd neðan í þyrlu.
Í tengslum við kerruna góðu er í burðarliðnum samstarfssamningur milli Björgunarsveitarinnar Suðurnes og greiningarsveitar Landsspítala-háskólasjúkrahúss um að flokkur frá björgunarsveitinni er kallaður út samhliða greiningarsveit Landsspítalans. Flokkurinn sem fylgir kerrunni er m.a. skipaður vel þjálfuðum mönnum frá Brunavörnum Suðurnesja.
Björgunarsveitina Suðurnes skipar hópur 40 virkra félaga, auk yfir 20 nýliða sem nú eru í þjálfun. Þegar mikið liggur við samanstendur björgunarsveitin hins vegar af um 100 körlum og konum sem hafa þjálfun og þekkingu til að takast á við hin fjölbreyttustu verkefni, segir Gunnar Stefánsson, formaður Björgunarsveitarinnar Suðurnes í samtali við Víkurfréttir.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024