Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Mikil uppbygging fyrirhuguð í íþrótta- og tómstundamálum í Sandgerði
Miðvikudagur 21. desember 2005 kl. 16:43

Mikil uppbygging fyrirhuguð í íþrótta- og tómstundamálum í Sandgerði

Mikil uppbygging er í vændum í íþrótta og tómstundamálum í Sandgerði. Á síðasta bæjarstjórnarfundi voru settar fram hugmyndir um miklar endurbætur, m.a. á sundlaug bæjarins. Lagði meirihlutinn fram tilllögur í nokkrum liðum um framtíðarsýn í íþróttamálum.

Sigurður Valur Ásbjarnarson, bæjarstjóri í Sandgerði, sagði í viðtali við Víkurfréttir að eftir talsverðar umbætur á ýmsum stofnunum bæjarins myndi bærinn nú einbeita sér að íþróttamannvirkjum líkt og sundlaug og íþróttahúsinu. „Við lögðum þessar tillögur fram á fundinum og þaðan voru þær sendar til viðkomandi fagráða sem munu afgreiða þau.“

Fyrst má telja að meirihlutinn lagði til að tekið verði upp samstarf við Fasteign ehf. um stækkun íþróttamiðstöðvar bæjarins í samstarfi við sjálfstæðan rekstraraðila til að byggja upp þreksal og fjölnota þolfimisal við enda íþróttamiðstöðvarinnar og var íþróttaráði falið verkefnið til tillögugerðar fyrir bæjarstjórn.

Einnig var lagt til að farið yrði út í undirbúningsvinnu fyrir byggingu 25m sundlaugar við hlið núverandi sundlaugar. Í þeim áætlunum er gert ráð fyrir því að gamla sundlaugin verði notuð sem barnalaug með rennibrautum og þess háttar.

Þá verður á næstunni farið út í viðræður við Golfklúbb Sandgerðis þar sem rætt verður um fjármögnun á stækkun golfvallarins upp í 18 holur. Bærinn á landið sem viðbótin verður á, en þaegar er búið að teikna upp holurnar sem bætt verður við.

Lagt er til að farið verði út í viðræður við knattspyrnufélagið Reyni um framtíðaruppbyggingu á svæði þeirra, en samkvæmt tillögum meirihlutans fær deildin full afnot af vallarhúsi sínu þegar félagsmiðstöðin Skýjaborg flyst um set að Skólavegi 1 á næsta skólaári. Reynir mun því fá húsið til afnota í maí þrátt fyrir að eftir séu nokkur ár af leigusamningi um afnot bæjarfélagsins af hluta hússins fyrir unglingastarf er tengist grunnskólabörnum.

Hvað varðar félagsstarf fyrir unglinga er von á byltingu í þeim efnum þegar opnuð verður félagsmiðstöð í Skýlinu þar sem bæjarskrifstofur hafa verið til húsa, en eins og flestir vita, verða þær fluttar yfir í Vörðuna.
Sú miðstöð er ætluð unglingum sem eru eldri en 16 ára og verður reksturinn með svipuðum hætti og 88 Húsið í Reykjanesbæ. Þar er einnig mögulegt að önnur frjáls félagasamtök geti haft afnot af húsnæðinu og eru skátarnir nefndir sem dæmi.

Meirihlutinn segir að bæjarbúar og bæjarfélagið hafi notið þess að bæjarstjórn hafi á undanförnum árum samþykkt markaðsátakið Sandgerði innan seilingar og þannig gert það að verkum að bæjarfélagið er áhugavert til búsetu í umhverfi sem eigi og fari að skara fram úr á Suðurnesjum. Bæjarstjórn Sandgerðisbæjar hafi alla burði til að koma góðum málum í verk enda sé sýni fjárhagsáætlun fyrir næsta ár að fjárhagsstaðan sé góð.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024