Mikil tækifæri við Rósasel
- Góð viðbrögð við áætlunum um byggingu kjarna við flugvöllinn
Kaupfélag Suðurnesja kynnti í síðustu viku hugmyndir um uppbyggingu á verslunar- og þjónustukjarna við Keflavíkurflugvöll. Að sögn Skúla Skúlasonar, stjórnarformanns Kaupfélags Suðurnesja, grundvallast hugmyndin á því að styðja við þá umfangsmiklu þróun sem á sér stað við Flugstöðina á Keflavíkurflugvelli. Þjónustumiðstöðin verður staðsett við hringtorgið næst Flugstöðinni, á milli afleggjara til Garðs og Sandgerðis. Áætlað er að framkvæmdir hefjist á fyrri hluta ársins og að þeim ljúki á því næsta.
„Það hafa sjálfsagt margir horft til þessa svæðis sem tækifæri fyrir okkur Suðurnesjamenn en síðastliðið sumar var athafnamaður hér á Suðurnesjum sem hvatti félagið til að hafa frumkvæði að því að þróa uppbyggingu á svæðinu við hringtorgið,“ segir Skúli um aðdraganda þess að ákveðið var að ráðast í byggingu á Rósaselstorgi. „Við gripum boltann á lofti enda hefur félagið skilgreint sig sem hreyfiafl framfara. Við kynntum hugmyndina fyrir sveitarfélaginu Garði og höfum verið að undirbúa þetta í samráði við bæjaryfirvöld.“
Nú er verið að kynna verkefnið fyrir hinum ýmsu aðilum. Skúli segir að gaman væri ef heimamenn sæju tækifæri í staðsetningunni. „Að sjálfsögðu er aðalatriðið að þarna myndist rekstrargrundvöllur fyrir sterka heild í verslun og þjónustu.“ Að sögn Skúla verður sala á dagvöru að öllum líkindum kjölfestan í þjónustunni en stefnt er að opnun Nettó verslunar þar. Hann segir einnig ljóst að eftirspurn sé eftir bensínstöð og bílatengdri þjónustu á svæðinu. Þá séu einnig vafalaust tækifæri fyrir veitingaaðila, verslanir með ferðatengda vöru, banka og bílaleigur. „Viðbrögðin hafa verið afar jákvæð og greinilegt að margir hafa verið að hugleiða á svipuðum nótum og við. Aðilar eru að setja sig í samband við okkur og við erum að kynna verkefnið fyrir hinum ýmsu aðilum þessa daga, segir Skúli.“
Sér fyrir sér klasasamstarf
Skúli segir klasasamstarf vera að aukast á ýmsum sviðum og er það að hans mati áhugaverð þróun. Ein hugmyndin er að í Rósaselstorgi verði veitingasalan öll á sama stað og að gestir neyti veitinga í rými sem sameiginlegt er með öllum stöðunum, líkt og þekkist í verlsunarmiðstöðvum. „Að mínu viti er það í raun ein tegund samvinnu. Fyrirtæki geta verið í samkeppni en til að hámarka nýtingu og auka hagkvæmni þá eru ákveðnir þættir samnýttir, þau reyna sem sagt að hámarka arðsemi í virðiskeðjunni. Þannig gæti ég séð fyrir mér, ef áhugi er fyrir, að veitingastarfsemin yrði skipulögð eins og „Food Cort“, þá samnýta staðirnir borð, stóla og fleira en keppa sín á milli um viðskiptavinina á grundvelli framboðs, verðs og þar fram eftir götunum.“
Þjónustuver fyrir bílaleigur
Önnur áhugaverð þróun sem Skúli nefnir eru bílaleigumiðstöðvar. „Slíkar er algengt að sjá víða erlendis. Þá taka nokkrar bílaleigur sig saman og leigja sameiginlega aðstöðu þar sem viðskiptavinir ólíkra bílaleiga eru afgreiddir með bíla sína. Viðskiptavinirnir gætu þá verið sóttir í flugstöðina af skutlu sem bílaleigurnar reka saman. Þá gætu þessir aðilar hugsanlega haft aðgang að sameiginlegri þvottaaðstöðu og annarri grunnþjónustu,“ segir hann.
Tækifæri fyrir Suðurnesin í ferðamennsku
Ljóst er að allir flugfarþegar til og frá Keflavíkurflugvelli munu eiga leið fram hjá Rósaselstorgi og því býður staðsetningin upp á gríðarleg tækifæri fyrir bæjarfélögin á Suðurnesjum til að kynna fyrir ferðamönnum hvað þau hafa upp á að bjóða. „Það gæti verið að þarna væri rétta staðsetningin fyrir miðstöð upplýsinga um svæðið okkar, nokkurs konar gluggi inn í bæjarfélögin. Samkvæmt hagtölum ferðaþjónustunnar sem birtar voru í apríl á síðasta ári var Reykjanesbær í 7. sæti yfir áfangastaði á Íslandi yfir vetrartímann. Við getum án nokkurs vafa aukið áhuga og kynningu á svæðinu okkar, ekki bara fyrir erlenda ferðamenn heldur líka íslendinga.“
Svona gæti sameiginlegt rými nokkurra bílaleiga litið út.
Fyrirhugað er að í kjarnanum verði upplýsingamiðstöð fyrir ferðamenn.