Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Fréttir

  • Mikil tækifæri í tengslum við gagnaver
  • Mikil tækifæri í tengslum við gagnaver
Miðvikudagur 4. júní 2014 kl. 09:04

Mikil tækifæri í tengslum við gagnaver

– Segir Kjartan Þór Eiríksson, framkvæmdastjóri KADECO

Ísland á mikil tækifæri í tengslum við gagnaver og iðnaðurinn er mjög eftirsóknarverður fyrir Ísland. Hann snertir marga þætti sem við viljum byggja upp hér á landi. Í fyrsta lagi þá er uppbygging gagnavera ný leið til að nýta innlenda græna orku. Það eru yfirleitt sérhæfð og menntuð störf sem fylgja starseminni og yfirleitt skapa gagnaverin grundvöll að einhverju öðru. Þá myndar uppbyggingin tækifæri fyrir fyrirtæki sem hafa ábata af því að vera í nálægð við gagnaverin. Við sjáum möguleika á að ná hingað fyrirtækjum sem eru í flókinni reikningsvinnslu, þar sem er verið að vinna með mikið af þungum gögnum“.

Þetta segir Kjartan Þór Eiríksson, framkvæmdastjóri Þróunarfélags Keflavíkurflugvallar, Kadeco. Tvö gagnaver eru nú í uppbyggingu á Ásbrú. Gagnaver Verne hóf starfsemi fyrir nokkrum misserum og er í hraðri uppbyggingu. Þá hófust nýverið framkvæmdir við gagnaver Advania í útjarðri Ásbrúar upp af Fitjum.

Kjartan nefnir sem dæmi að gagnaver Verne á Ásbrú er t.a.m. með fyrirtæki í hýsingu sem er að vinna með áhættugreiningarmódel. Þar er mikið af gögnum sem eru reiknuð og keyrð í gegnum vélbúnað í gagnaveri Verne. Annað dæmi um möguleg fyrirtæki sem myndu nýta sér gagnaver á Íslandi eru fyrirtæki sem eru að „rendera“ kvikmyndir. „Þar er gríðarleg gagnakeysla og það góða við þau fyrirtæki er að þau eru að nýta reiknigetu gagnaveranna á þeim tíma sólarhringsins þegar minnst er að gera. Þetta vinnur vel saman og þessi fyrirtæki eru að skapa mikið virði fyrir svæðið þar sem þau setja sig niður,“ segir Kjartan Þór.

Gagnaver gatnamót framtíðarinnar
Í gegnum tíðina hafa borgir vaxið í kringum ýmiskonar samgöngutengingar. Hafnarborgir hafa byggst upp og þá hafa borgir myndast í tengslum við brautamót á lestarteinum og jafnvel hraðbrautamót. Hin síðari ár hafa borgir byggst upp í kringum flugvelli og kenningar eru um að í nánustu framtíð muni borgir rísa í kringum þá staði þar sem gögnin eru staðsett.

„Fyrir mér er þetta rökrétt pæling og við sjáum þessa þróun eiga sér stað víða um heim, að fyrirtæki í gagnavinnslu eru að velja þessar staðsetningar, að vera nálægt gagnaverum“.

Góð staðsetning Íslands
Gagnaverin á Íslandi taka öll á móti og senda frá sér göng um ljósleiðara. Tengingar við Ísland með sæstrengjum eru þokkalegar í dag en hafa þó að einhverju leyti verið dragbítur á uppbyggingu gagnavera. Nú horfir hins vegar til betri tíðar með nýjum streng milli Evrópu og Ameríku sem mun jafnframt taka land í nágrenni Grindavíkur.

„Staðsetning Íslands á milli meginlands Evrópu og Ameríku skiptir miklu máli og eykur möguleikana í uppbyggingu hér. Markaður fyrir þjónustu gagnavera er að vaxa mikið í Evrópu. Fjölmörg risastór fyrirtæki og önnur mjög stór sem við höfum jafnvel aldrei heyrt nefnd á nafn eru að byggja upp gagnaver eða þurfa á þjónustu gagnavera að halda,“ segir Kjartan Þór.

Varðandi staðsetninguna þá nefnir hann dæmi um fyrirtæki sem staðsett er í Bos-ton í Bandaríkjunum og er að höndla með fjármálaupplýsingar í Texas. Slíkt fyrirtæki gæti hæglega hugsað sér að nýta gagnaver á Íslandi til að vinna með upplýsingar því vegalengdir milli Boston og Texas annarsvegar og Boston og Íslands hinsvegar eru svipaðar. Sum fyrirtæki eru mjög næm fyrir því hversu hratt upplýsingar geta borist og jafnvel brot úr sekúndum geta ráðið miklu í fjármálaheiminum þar sem tölvur eru farnar að sjá um kaup og sölu hlutabréfa, svo dæmi séu tekin. Hýsing netþjóna fyrir tölvuleiki er einnig áhugaverður kostur hér á landi, mitt á milli Evrópu og Ameríku.

Framtíðin í skýjum
Gagnaver munu einnig gegna mun stærra hlutverki í náinni framtíð þar sem geymslupláss í tölvum er að minnka og tilhneiging til að fólk geymi gögn sín frekar í „tölvuskýjum“. Þessi þróun er að springa út þessi misserin og gagnamagnið margfaldast á hverju ári.

– Hvernig sérðu uppbyggingu gagnavera hér á Ásbrú til framtíðar?
„Það er ekki æskilegt að þessi iðnaður verði alltof stór. Við viljum frekar sjá flóru fyrirtækja og blanda saman fleiri greinum og ólíka atvinnustarfsemi á sama reit. Það er hins vegar ennþá tækifæri til að bæta töluvert við. Hér á Íslandi erum við með ókeypis kælingu allt árið, græna orku og öruggt umhverfi. Þetta eru allt atriði sem fyrirtækin eru að leita eftir. Varan sem við erum að bjóða er algjörlega í takt við það sem fyrirtækin eru að sækjast eftir og jafnvel er vaxandi vitund á markaði erlendis eftir því sem við erum að bjóða“.

Ólík gagnaver
Fyrirtækin í rekstri gagnavera eru ólík. Störfin geta verið 150 talsins í einu stóru gagnaveri og þau geta einnig verið 10-15. Gagnaver Verne er dæmi um gagnaver sem skapar mörg störf því þar eru margir ólíkir aðilar samankomnir í einu og mikil þjónusta í kringum þá og þar verða yfir 100 - 150 starfsmenn þegar uppbyggingu er lokið.

„Við eigum að reyna að setja fókus á þau fyrirtæki sem eru að skapa meira virði, sem útheimta meiri þjónustu og skilja meira eftir sig, frekar en hin þar sem bara er verið að geyma gögnin og öllu fjarstýrt, jafnvel bæði viðhaldi og rekstri kerfa erlendis frá. Við þurfum að vanda valið á þeim fyrirtækjum sem við sækjumst í að setjist hér að, þó svo ekki sé alltaf hægt að ráða öllu um það,“ segir Kjartan Þór.

Mikil þjónusta við gagnaver í örum vexti
„Mikill þjónustuiðnaður mun vaxa í kringum gagnaverin. Við sjáum fyrirtæki eins og Advania, Nýherja, Opin kerfi og fleiri slík sem munu veita þessum gagnaverum þjónustu, selja þeim búnað ásamt þjónustu við uppsetningu og rekstur. Gagnaverin kalla einnig á mikla öryggisgæslu, sérhæfða iðnaðarmenn af öllum sviðum, mikið af tæknimönnum, viðskiptafræðingar, tölvunarfræðingar, verkfræðingar og þetta er bara gríðarlega spennandi iðnaður. Gagnaversiðnaðurinn er í örum vexti og er að velta miklu. Það er mikil þörf fyrir gagnaver og fer hratt vaxandi. Það eru miklir peningar í húfi og þetta er spennandi iðnaður að draga inn. Þá erum við stoltir af þeim verkefnum tveimur sem þegar eru í uppbyggingu hér á Ásbrú“.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024