Mikil óeining innan raða Pírata
Fimm af 14 frambjóðendum ætla að segja skilið við flokkinn
Við greindum frá því að ósamstaða væri innan Pírata í Reykjanesbæ, eftir að ljóst varð að Páll Árnason, fjórði maður á lista, sagði skilið við flokkinn, en hann sakaði oddvita um að fara ekki eftir grunngildum flokksins. Forysta flokksins svaraði fyrir það í gær en í yfirlýsingu frá Pírötum í kjölfarið segir að ósætti hafi verið milli Páls og Trausta Björgvinssonar oddvita flokksins. Ekki sé raunin að flokkurinn eða oddviti hafi tekið þá stefnu í einhverjum einræðisherraleik.
Páll segir að eftir að þessi yfirlýsing hafi farið í loftið, að óeining hafi aukist enn frekar í röðum flokksins. „Þar fór kapteinninn með hrein ósannindi varðandi málefni sem varða brotthvarf mitt,“ segir Páll sem skipar fjórða sæti listans. „Þetta varð til þess að hella olíu á eldinn og sagði frambjóðandinn í 9. sæti (Gústaf Ingi Pálsson) sig formlega úr Pírötum í gær. Munu fimm manns væntanlega segja sig úr flokknum strax á mánudag eftir kosningar.“ Því er allt útlit fyrir að sex frambjóðendur af 14 muni segja skilið við framboðið.
ég hef orðið fyrir miklum persónulegum svívirðingum
„Hafa netheimar logað vegna þessa og óvandaðir Píratar á höfuðborgarsvæðinu sem og í Reykjanesbæ hafa ekki legið á skoðunum sínum á þeim frambjóðendum sem eru að yfirgefa sökkvandi skipið. Flestir án þess að hafa hugmynd um málavexti,“segir Páll. Hann segist ekki hafa farið inn í pólítík á þessum forsendum. „Langt því frá. Innan spjallborðs Pírata hef ég orðið fyrir miklum persónulegum svívirðingum. Þetta er komið langt út fyrir öll velsæmismörk. Menn eru komnir ofan í holu og halda bara áfram að grafa.“ Páll segist ekki vilja skapa leiðindi en hann telur að kjósendur verði að vera upplýstir áður en gengið er til kosninga.
Tengdar fréttir:
Fjórði maður á lista Pírata er hættur