Mikil neyð á Suðurnesjum og yfir 300 fjölskyldur þurfa jólaaðstoð
„Ástandið á Suðurnesjum er skelfilegt og ég finn það að fólk er bugað,“ segir Anna Jónsdóttir, verkefnastjóri Fjölskylduhjálpar Íslands á Suðurnesjum. Hún hefur síðustu daga verið að taka niður skráningar í jólaaðstoðina sem Fjölskylduhjálpin veitir á Suðurnesjum. Nú síðdegis höfðu 300 fjölskyldur skráð sig fyrir jólaaðstoð og síminn var ennþá að hringja.
„Þetta verða yfir 300 fjölskyldur á Suðurnesjum sem fá jólaaðstoð Fjölskylduhjálpar Íslands á morgun. Síminn hringir stanslaust hjá mér og svo eiga margir eftir að koma í röðina á morgun. Það er orðin greinileg fátækt á Suðurnesjum,“ sagði Anna. Fyrst var úthlutað fyrir hálfum mánuði. Þá fengu 165 fjölskyldur aðstoð. Í síðustu viku voru fjölskyldurnar 148 og verða á morgun yfir 300.
Hún segir neyðina mikla. Fólk hringi grátandi og finnst það bjargarlaust. „Kirkjan hefur verið að gera góða hluti en það þarf miklu meira til hér á Suðurnesjum. Það sjáum við best á þeim fjölda sem skráir sig nú fyrir aðstoð“.
Aðspurð sagði Anna að það væri lítið um einstaklinga sem væru að sækja aðstoð. Þetta væru fjölskyldur með fimm til sex einstaklinga á heimili.
Suðurnesjamenn hafa fundið það í dag að frostið er að bíta af hörku og kinnar og puttar verða ísköld á örfáum mínútum. Fjölskylduhjálp Íslands hefur verið mjög heppin að fá inni á veitingastaðnum Center sem er beint fyrir ofan starfsstöð Fjölskylduhjálpar Íslands við Hafnargötu 29, en það eru þeir félagar Pálmi Þór Erlingsson og Gunnar Adam Ingvarsson, eigendur Center sem ætla að leggja sitt af mörkum og hafa opið fyrir fólk.
„Við erum sjávarmegin við húsið og hér verður örugglega kalt utandyra á morgun. Við höfum því hvatt þá sem koma að sækja jólaaðstoðina að mæta inn á veitingahúsið Center að Hafnargötu 29 kl. 15:30 á morgun og fá sér kaffi eða kakó á meðan beðið er úthlutunar,“ sagði Anna. Þá bjóða Sigurjónsbakarí og Nýja bakaríið upp á veitingar með kaffinu.
Boðið verður upp á lifandi tónlist og skemmtun fyrir börnin á meðan beðið er úthlutunar. Börnin fá einnig sælgæti frá Nóa Síríus. Fólk fær númer þegar það kemur og þá eru fjölskyldustærðir skráðar til að auðvelda úthlutunina. Innangengt verður úr veitingahúsinu í úthlutunarstöð Fjölskylduhjálparinnar.
Í pokanum á morgun verður hamborgarhryggur og meðlæti, mjólkurvörur, ávextir og gos. Einnig góðgæti fyrir jólin. Þá er von til þess að fiskmáltíð verði einnig í pokanum.
Suðurnesjamenn hafa brugðist vel við komu Fjölskylduhjálpar Íslands til Suðurnesja. Fyrirtæki á Suðurnesjum hefur gefið svínahamborgarhryggi og húsmæður hafa verið duglegar að baka. Þannig verður jólabakstri úthlutað á morgun. Einnig verður úthlutað gjafakortum.
Fataúthlutun mun einnig fara fram á morgun og verður bæði hægt að velja úr nýjum og notuðum fatnaði fyrir börn.
Anna Jónsdóttir vildi biðla til einstaklinga og fyrirtækja á Suðurnesjum að það vantaði tannkrem, sápur og almennar hreinlætisvörur til úthlutunar.
Lögð er sérstök áhersla á það að það vantar ýmislegt fyrir börn en af samtali blaðamanns við Önnu má merkja að fjölmörg börn eru í hópi þeirra sem njóta aðstoðar Fjölskylduhjálpar Íslands á Suðurnesjum.
Anna sagði að Suðurnesjamenn hefðu tekið vel á móti Fjölskylduhjálp Íslands. Hún saknaði þess hins vegar að hafa ekki séð t.a.m. bæjarfulltrúa eða forsvarsmenn sveitarfélaga á staðnum. „Þetta eru yfir 300 fjölskyldur á Suðurnesjum í skelfilegri stöðu,“ sagði Anna Jónsdóttir, forstöðumaður Fjölskylduhjálpar Íslands á Suðurnesjum í samtali við Víkurfréttir.