Mikil mengun á Nikkel-svæðinu
Sigríður Jóhannesdóttir og Steingrímur J. Sigfússon hafa lagt fram þingsályktunartillögu um að mengun í jarðvegi og grunnvatni við Keflavíkurflugvöll verði rannsökuð.Í greinargerð, sem fylgir tillögunni, kemur m.a. fram að árið 1989 hafi bandaríski herinn látið gera mælingar á grunnvatnssýnum sem tekin voru á umráðasvæði hersins og þar í grennd. Rannsóknin tók aðeins til tveggja hættulegra efna, leysiefnisins TCE og hins baneitraða PCE. Þá kom í ljós að TCE fannst á útbreiddu svæði við flugvöllinn og var víða yfir hættumörkum, m.a. við þáverandi vatnsból Njarðvíkinga og hersins. Efnið TCE er talið geta valdið ýmsum alvarlegum sjúkdómum, svo sem hjartagöllum og vera krabbameinsvaldandi. PCE, sem er baneitrað, fannst einnig í nokkrum mæli í grunnvatnssýnum. Hvorki TCE né PCE eyðast í náttúrunni. Það er því nauðsynlegt að hreinsa jarðveginn, annars breiðast þau sífellt út. Í bandarískum lögum er kveðið á um að Bandaríkjamenn fari að kröfum viðkomandi þjóða í umhverfismálum. Það hefur þó orðið misbrestur þar á því herinn neitaði á sínum tíma, að fjármagna rannsókn á Nikkel-svæðinu, en grunur lá á að svæðið væri verulega mengað. Niðurstaðan varð sú að utanríkisráðuneytið tók að sér að tryggja fjármögnun á rannsókn á jarðvegssýnum, sem tekin voru á umræddu svæði. Hinn illi grunur reyndist vera á rökum reistur, því í ljós kom að sýnin voru mikið menguð af olíu og einnig var nokkur blýmengun á afmörkuðum svæðum. „Okkur ber því að gæta hagsmuna þegna okkar, krefjast þess að þessi mál verði rannsökuð og viðeigandi ráðstafanir gerðar til úrbóta svo að landið verði aftur nýtanlegt“, eru lokaorð greinargerðarinnar.