Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Mikil gróska í málefnum barna  og ungmenna í Reykjanesbæ
Fulltrúar ungmennaráðs fluttu ræður á bæjarstjórnarfundi í Reykjanesbæ.
Fimmtudagur 2. nóvember 2023 kl. 06:00

Mikil gróska í málefnum barna og ungmenna í Reykjanesbæ

Síðustu vikur hafa verkefnin hjá ungmennaráði Reykjanesbæjar verið mörg. Þar má nefna sameiginlegan fund bæjarstjórnar Reykjanesbæjar og ungmennaráðs sem haldinn var þann 17. október síðastliðinn og barna- og ungmennaþing Reykjanesbæjar sem fór fram þann 19. október. Meðlimir ungmennaráðs eru áheyrnarfulltrúar í ráðum og nefndum bæjarins. Hlutverk ráðsins er fyrst og fremst að vera rödd ungmenna í bænum. Þau taka við hugmyndum og ábendingum frá börnum og ungmennum og koma þeim á framfæri til ráða og nefnda innan bæjarins.

Fundur bæjarstjórnar Reykjanesbæjar og ungmennaráðsins er árlegur viðburður þar sem ungmennin í ráðinu geta komið skoðunum sínum á framfæri til bæjarstjórnar. Á fundinum í ár fóru tólf meðlimir ráðsins með fjölbreytt erindi um mál er varða börn og ungmenni, auk þess voru fjögur erindi skrifleg. Það var fjallað um það sem betur mætti fara en einnig það sem vel er gert. Líkt og á síðasta fundi mátti heyra að andleg heilsa, skjátími og símanotkun barna, aðstaða tómstunda og íþrótta, aðstaða nemenda í skólum bæjarins og umhverfis- og flokkunarmál séu mikið áhyggjuefni meðal ungmenna.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Ungmennaráðið í samstarfi við Fjörheima félagsmiðstöð héldu barna- og ungmennaþing í sömu viku. Þingið er mikilvægur liður í innleiðingu verkefnisins Barnvænt sveitarfélag í Reykjanesbæ. Alls sóttu um 170 börn og ungmenni úr grunnskólum Reykjanesbæjar viðburðinn en markmið þingsins er að veita þeim rödd innan stjórnsýslunnar. Þarna fá börn og ungmenni bæjarins vettvang til að koma fram sínum skoðunum um hina ýmsu málaflokka og ungmennaráð Reykjanesbæjar vinnur úr niðurstöðum þingsins og kemur hugmyndum og ábendingum til ráðamanna bæjarins. Málaflokkarnir sem teknir voru fyrir á þinginu voru eftirfarandi: Menntun, tómstundir og frítíminn, íþróttir, andleg líðan og lýðheilsa, skipulagsmál og samgöngur og menning. Þátttakendum var skipt niður á sextán borð þar sem líflegar samræður mynduðust og ljóst er að ungmenni bæjarins eru uppfull af hugmyndum og hafa áhuga á því að koma að borðinu og segja sína skoðun á málum sem geta litað þeirra upplifun á bænum og framtíð þeirra í Reykjanesbæ. Þetta er í annað skiptið sem slíkt þing er haldið en það var þó með mun stærra sniði en áður þar sem fyrra þingið var haldið í miðjum heimsfaraldri.

Áhyggjur og skoðanir meðlima ungmennaráðs Reykjanesbæjar sem fóru með erindi á bæjarstjórnarfundi fyrr í vikunni rýma því vel við þær umræður sem áttu sér stað á þinginu og er augljóst að þeir séu vel upplýstir og standi sig vel sem fulltrúar barna og ungmenna bæjarins. Þar með er innleiðing verkefnisins Barnvænt sveitarfélag að skila sér í verki og því ber að fagna.

Ungmennaráð Reykjanesbæjar 2023