Mikil framleiðni í gosinu
Mælingar sem gerðar voru á nýja hrauninu um hádegisbil fimmtudaginn 8. febrúar gefa til kynna að þá höfðu þegar um 15 milljón rúmmetrar hrauns runnið. Þetta kemur fram í færslu frá Eldfjalla- og náttúruvárhópi Suðurlands á Facebook.
Miðað við það er ljóst að um 600 rúmmetrar af hrauni runnu að meðaltali á hverri sekúndu fyrstu tímana (frá kl 06.02 -13:00). Má gera ráð fyrir að rennslið hafi verið enn meira á einhverjum tímapunkti. Er þetta mesta framleiðnin sem sést hefur í gosunum á Reykjanesskaga frá 2021 og á pari við það sem sást fyrstu vikurnar í Holuhraunsgosinu 2014.
Þessi mikla framleiðni hefur komið nokkuð á óvart og gæti hún verið helsta ástæða þess hve hratt hlutirnir þróuðust á fimmtudagsmorgninum. Stuttu eftir upphaf eldgossins var litið á staðsetningu þess sem mjög heppilega, en um hádegisbil var hins vegar Grindavíkurvegur komin undir hraun og Suðurnesin öll heitavatnslaus.
Gosið sem hófst við Sundhnúka 18. desember í fyrra er talið hafa náð 400 m3/s þegar mest lét. Eldgosin þrjú í Fagradalsfjalli náðu mest einungis um 50 m3/s þegar gosið við Litla Hrút hófst síðasta sumar.
Eldgosið fyrir jól átti sér stað á lengri sprungu en nýyfirstaðið gos, ásamt því að standa töluvert lengur yfir. Engu að síður náði það ekki sömu hæð í framleiðni og gosið 8. febrúar, segir í færslu hópsins.