Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Mikil fjölgun nemenda í grunnskólum Reykjanesbæjar
Mánudagur 20. ágúst 2007 kl. 11:48

Mikil fjölgun nemenda í grunnskólum Reykjanesbæjar

Nú í upphafi skólaannar stefnir í talsverða fjölgun nemenda í grunnskólum Reykjanesbæjar. Á síðustu haustönn voru nemendur 1845 en stefna í að vera um 1960 á þessari haustönn. Mönnun í kennarastöður  hefur gengið ágætlega a.m.k. miðað við víðast hvar annars staðar s.s. á Reykjavíkursvæðinu.

„Það er ljóst að bekkurinn verður þétt setinn víða. Mest er fjölgunin í Akurskóla eða um 70 nemendur en húsnæðislega annar skólinn því. Fjölgunin var nokkuð meiri en við reiknuðum með. Hún kom nokkuð hratt þannig að við þurftum t.d. að auglýsa eftir kennara núna í lok sumars,” sagði Eiríkur Hermannsson, fræðslustjóri Reykjanesbæjar, aðspurður um það hvernig skólarnir væru í stakk búnir að taka við svo skyndilegri fjölgun.
Að sögn Eiríks hefur gengið þokkalega að manna kennarastöður. Ekki hefur þó gengið að manna alla stöður með fagmenntuðu fólki. „Ég held við getum bara þokkalega vel við unað miðað við margt annað,” segir Eiríkur en samkvæmt fréttum hefur sumstaðar gengið erfiðlega að fá kennara til starfa.

Lauslega reiknað er þessi skyndilega nemendafjölgun að nokkrum hluta rakin til nýrra íbúa á háskólasvæði Keilis. Um það bil 50 nemendur koma þaðan, hitt vegna annarar fólksfjölgunar í bæjarfélaginu.

Nýverið var undirritaður tveggja ára samningur við Hjallastefnuna um rekstur barnaskóla á háskólasvæðinu, sem ætlaður er nemendum í 1. – 4. bekk. Það léttir nokkuð á fjölguninni í skólunum í Reykjanesbæ sem að öðrum kosti hefðu einnig þurft að taka við þessum nemendum, sem verða um 80 talsins til að byrja með.

Loftmynd/Oddgeir Karlsson - Akurskóli

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024