Mikil fjölgun gesta í Víkingaheima
	Þann 5. október, fyrir sléttum 12 árum, sigldi víkingaskipið Íslendingur inn til hafnar í New York, til staðfestingar á landafundum Íslendingsins Leifs Eiríkssonar heppna, þúsund árum áður. Skipið sjálft, saga þess og fyrstu landnámsmannanna má nú sjá í glæsilegri aðstöðu fyrir ferðamenn í Víkingaheimum í Reykjanesbæ, ásamt fleiri tengdum sýningum.
	
	Að sögn Valgerðar Guðmundsdóttur, menningarfulltrúa hjá Reykjanesbæ, sem sinnir framkvæmdastjórn Víkingaheima hafa þær fimm sýningar sem nú eru í húsinu fengið mikið lof ferðamanna og kynningarfyrirtækja.  Þrjár nýjar sýningar voru settar í húsið í vor og þær tvær sem fyrir voru, voru endurnýjaðar og yfirfarnar.  Í september s.l. hafði gestum Víkingaheima fjölgað um 45% frá öllu árinu í fyrra. Heildarfjöldi gesta allt árið 2011 var 8.474 en það sem af er árinu 2012 eru komnir  12.328 gestir. Um 80% gesta eru erlendir ferðamenn, flestir frá Þýskalandi, Bandaríkjunum og Bretlandi.
	
	Sýningarnar fimm eru eftirfarandi:
	
	Víkingaskipið Íslendingur er nú sem fyrr stærsti sýningargripurinn, en við innganginn í skipið hefur verið komið fyrir upplýsingum um siglingu Íslendings til Vesturheims árið 2000.
	
	Hluti úr Smithsonian sýningunni „Víkingar Norður Atlantshafsins“, sem sett var upp víða í Bandaríkjunum árið 2000, prýðir nú neðri hæð hússins.  
	
	Sett hefur verið upp sýningin  Sagnaslóðir á Íslandi  á efri hæð þar sem allar helstu sagnaslóðir á landinu eru nú kynntar í myndefni og texta á fjórum tungumálum.  Sú sýning er unnin í samstarfi við Samtök um sögutengda ferðaþjónustu.
	
	Byggðasafn Reykjanesbæjar stendur fyrir vandaðri sýningu á fornminjum á Suðurnesjum, studda af rannsóknargögnum frá Höfnum. Sýningin var sett upp í sal við innganginn á neðri hæðinni.  
	
	Þá setti Listasafn Reykjanesbæjar upp listræna sýningu á norrænni goðafræði „Örlög goðanna“ á efri hæð hússins þar sem gestir upplifa norrænu guðina með aðstoð myndlistar, tónlistar og hljóðleiðsagnar á fjórum tungumálum.


 
	
				


 
						 
						 
						 
						 
						 
						

 
				 
				 
				 
				 
				
 
				 
				 
				 
				