Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Mikil aukning ferðamanna í sumar - fleiri störf
Föstudagur 3. febrúar 2012 kl. 03:06

Mikil aukning ferðamanna í sumar - fleiri störf

Mikil hefur verið talað um fjölgun ferðamanna og allar spár segja að metár verði í fjölda þeirra. Spurning er hvað Suðurnesjamenn ætla sér stóran hluta af kökunni og reyni að fá ferðamenn til að dvelja og nota þá þjónustu sem boðið er upp á hér á svæðinu. Miðstöð símenntunar á Suðurnesjum hyggst fara af stað með Svæðisbundið leiðsögunám um Reykjanes í febrúar og að sögn Guðjónínu Sæmundsdóttur forstöðumanns MSS munu þátttakendur útskrifast í vor og geta farið strax að vinna sem leiðsögumenn. Það er nauðsynlegt að hér á svæðinu sé mikil þekking sem hægt er að miðla til gesta okkar og er það ein af undirstöðum þess að svæðið fái ferðamenn til að dvelja hér. Námið er unnið í samstarfi við Menntaskólann í Kópavogi sem metur námið.

Síðast var Svæðisbundið leiðsögunám um Reykjanes kennt á árunum 2004 – 2005 og í þeim hópi var m.a. Rannveig Garðarsdóttir, Nanný, en hún hefur verið mjög öflug við að fara með hópa um Reykjannesið eftir útskrift og staðið fyrir mörgum skemmtilegum og fróðlegum ferðum um svæðið.

„Ég útskrifaðist sem svæðisleiðsögumaður árið 2005 eftir mjög skemmtilegt nám hjá MSS, þar kynntist ég góðu fólki sem hafði sama áhuga og ég á að kynnast sínu nánasta umhverfi betur og ekki síður fannst mér ánægjulegt að kynnast kennurunum sem voru afbragðs góðir og áhugasamir.

Þegar ég byrjaði í leiðsögunáminu hafði ég ekkert í farteskinu sem ég hélt að ég þyrfti að hafa sem leiðsögumaður nema áhugann á náttúru svæðisins og útivist. Allra síst hafði mér dottið í hug að ég gæti talað fyrir framan stóra hópa af fólki. Í náminu var áhugi minn vakinn á ótrúlegustu atriðum varðandi svæðið t.d jarðfræði, landamörkum, grafskriftum og rúnasteinum. Þjálfun í að tala fyrir framan fólk var stór hluti af náminu og ótrúlegt en satt þá tókst með ágætum að venja mig við það.

Með þetta nám upp á vasann opnast mörg tækifæri, hægt er að sérhæfa sig í ýmsum greinum eða áhugaefnum eins og gönguferðum, rútuferðum, svæðum eða því sem fólk hefur áhuga á. Einnig má bæta við sig Meiraprófi eða nýju tungumáli og þá opnast enn aðrir möguleikar.

Ég hef starfað við leiðsögn síðan ég útskrifaðist árið 2005 og hef ennþá sömu ánægjuna af starfinu. Ég nýti mér starfið sem aukavinnu og sérhæfði mig í gönguleiðsögn og býð upp á vikulegar gönguferðir um Reykjanes á sumrin. Einnig hef ég unnið við leiðsögn í rútuferðum, verið leiðbeinandi á námskeiðum í ferðaþjónustu, staðið fyrir sagnakvöldum í kirkjum á svæðinu og ýmislegt fleira.

Mín tilfinning er sú að ferðaþjónusta á þessu svæði sé eins og óplægður akur, að það séu gríðarlega mörg tækifæri sem felast í henni og auðvelt að búa sér til atvinnu með leiðsögupróf upp á vasann. Ég tel að þörfin fyrir menntaða leiðsögumenn um Reykjanes sé mikil.

Leiðsögunámið er því mjög hagnýtt nám og býður upp á mörg atvinnutækifæri þar sem mikill skortur hefur verið á fagmenntuðum leiðsögumönnum í dagsferðir um Reykjanes yfir sumartímann, meðal annars vegna aukinnar flugumferðar til landsins. Sem dæmi þá munu ellefu flugfélög fljúga reglulega til landsins í sumar og tel ég að það sé hægt að bjóða farþegum upp á stuttar rútu- eða gönguferðir um svæðið og einnig hefur aukist fjöldi skemmtiferðaskipa í Reykjavíkurhöfn.

Námið er áhugavert fyrir þá sem hafa áhuga á að starfa sem leiðsögumenn á Reykjanesi, það nýtist einnig vel þeim sem starfa nú þegar í greininni m.a. starfsfólki ferðaskrifstofa, upplýsingamiðstöðva, hópferðafyrirtækja, gestamóttöku hótela o.s.frv.

Ég mæli hiklaust með náminu og hvet alla þá sem hafa áhuga á ferðaþjónustu og langar að skapa sér nýjan starfsvettvang að skrá sig í námið,“ segir Nanný að lokum.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Umsóknarfrestur í námið er til 13. febrúar og kennsla hefst mánudaginn 20. febrúar. Umsóknareyðublöð og nánari upplýsingar má finna á www.mss.is eða hjá Hjörleifi Hannessyni í síma 421 7500.